Blómatollar vefjast fyrir ráðuneytum

05.02.2021

Félag atvinnurekenda hefur sent fjármála- og atvinnuvegaráðuneytunum ítrekun á erindi sínu frá í október 2019 um endurskoðun á tollaumhverfi blómaverslunar á Íslandi. Ráðuneytin hófu vinnu við endurskoðun blómatolla í nóvember 2019 í framhaldi af erindi FA, söfnuðu upplýsingum og kölluðu hagsmunaaðila á fundi. Í svari skattaskrifstofu fjármálaráðuneytins til FA í júní síðastliðnum var boðað að vinnunni lyki þá í mánuðinum, en nýlega bárust þau svör að málið væri enn í vinnslu í báðum ráðuneytum.

Tollar stuðla að alltof háu verði
Tollar á blóm á Íslandi eru gríðarlega háir og stuðla að alltof háu verði á blómum. Blómatollar samanstanda annars vegar af 30% verðtolli og hins vegar stykkjatolli sem leggst á hverja einustu plöntu, sama hvort um er að ræða pottablóm eða afskorin blóm. Þannig leggst á flest innflutt pottablóm 30% verðtollur og 200 króna stykkjatollur. Ef innflutningsverð pottaplöntu er 300 krónur ber hún 290 krónur í toll og innflutningsverðið tvöfaldast því sem næst. Á afskorin blóm leggst oftast 30% verðtollur og auk þess 95 króna stykkjatollur á hvert blóm. Tíu túlipana búnt, sem kostar 600 krónur í innkaupum, fær á sig 1.130 krónur í toll, þannig að innkaupsverðið hartnær þrefaldast.

FA hefur bent á fleiri staðreyndir varðandi blómatolla:

  • Tollar á blómum urðu útundan þegar ákveðið var að fella niður tolla af öllum vörum öðrum en matvörum árin 2016 og 2017. Rök um tollvernd fyrir innlenda framleiðendur í þágu fæðuöryggis eiga augljóslega ekki við um blóm.
  • Tollkvótar, heimildir til innflutnings á takmörkuðu magni blóma án magntolls en með verðtolli, svara litlu broti af eftirspurn og hafa ekki breyst árum saman. Mikil umframeftirspurn hefur verið eftir kvótunum allt frá árinu 2018, enda fer markaður fyrir blóm á Íslandi stækkandi. Útboðsgjald, sem innflytjendum er gert að greiða, hefur farið hækkandi (sjá línuritið hér fyrir neðan) og er farið að slaga upp í stykkjatollinn á blómum.
  • Háir stykkjatollar hvetja innflytjendur til að flytja inn dýrari vörur, sem gerir blóm að lúxusvöru fremur en daglegri neysluvöru eins og þau eru í flestum nágrannalöndum Íslands.
  • Innlend framleiðsla annar engan veginn eftirspurn eftir blómum, jafnvel ekki eftir þeim fáu tegundum sem ræktaðar eru hér á landi. Reglulega er skortur á blómum í blómaverslunum fyrir stóra „blómadaga.“ Þetta væri ekki vandamál ef innflutningur væri frjáls, en ofurtollar koma niður á bæði verði og úrvali.
  • Háir tollar á margvíslegar tegundir blóma vernda ekki neitt, af því að lítil sem engin ræktun er á þeim hér á landi.
  • Hagfræðilegu rökin fyrir niðurfellingu blómatolla eru skýr. Tollar hamla alþjóðaviðskiptum og hækka vöruverð. Í skjóli hás verðs á innflutningi geta innlendir framleiðendur haldið uppi verði á sinni vöru.

Allar þessar röksemdir eiga enn við og hefðu að mati FA átt að gefa ráðuneytunum ærna ástæðu til að vinda bráðan bug að því að gera lagfæringar á þessu einkar ósanngjarna tollaumhverfi blómaverslunarinnar í landinu.

Varnir fyrir matvælaframleiðendur bitna á blómainnflytjendum
Eftir að erindi FA til ráðuneytanna var sent hafa ýmsar aðrar breytingar orðið á rekstrarumhverfi blómaverslunar og fæstar til hins betra. Blómainnflytjendur koma til dæmis illa út úr nýlegri breytingu á útboðsfyrirkomulagi á tollkvótum, eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti. Útboðsgjald, sérstaklega á pottablómum, hækkaði á ný við breytinguna sem var gerð um áramótin, eftir að hafa lækkað við upptöku svokallaðs jafnvægisútboðs. Umrædd lagabreyting var rökstudd með því að eftirspurn eftir matvælum hefði dregist saman í kórónuveirufaraldrinum og nauðsynlegt væri að bregðast við til verndar innlendri framleiðslu. Þau rök eiga augljóslega ekki við um blómamarkaðinn, sem í fyrsta lagi telst ekki til matvælamarkaðar og hefur í öðru lagi ekki dregist saman í faraldrinum. Eftirspurn eftir blómum á neytendamarkaði hefur þvert á móti aukist þar sem fólk er meira heima og vill prýða híbýli sín með blómum. Rekstrarumhverfi blómaverslunar hefur hins vegar orðið erfiðara, annars vegar vegna aðgerða stjórnvalda og hins vegar vegna mikilla hækkana á innkaupsverði og flutningskostnaði vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Hægt að fara bil beggja
„Við vonumst til að ráðuneytin ljúki þessari vinnu sem fyrst og leggi fram skynsamlegar tillögur um niðurfellingu tolla á blómum. Að okkar mati á að vera hægt að fara bil beggja; viðhalda tiltekinni vernd fyrir innlenda framleiðendur en engu að síður fella niður tolla á mörgum vörum, sem myndi koma blómaverslun og neytendum mjög til góða,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.

Erindi FA til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning