Blómkál nánast ófáanlegt og lítið til af spergilkáli

08.10.2021
Neytendur taka íslenskt grænmeti oftast fram yfir innflutt. En þegar það íslenska er ekki til, ættu ekki að vera ofurtollar á því innflutta.

Blómkál er nánast ófáanlegt og lítið er til af spergilkáli í matvöruverslunum þessa dagana. Ástæðan er að á sama tíma og mjög lítið framboð er af innlendri uppskeru eru lagðir svo háir tollar á innflutta vöru að innflutningsfyrirtæki hafa ekki treyst sér til að flytja hana inn nema í litlum mæli. Skortur á þessum vörum bætist við skort á selleríi, sem hefur verið viðvarandi frá því í ágúst. Félag atvinnurekenda telur brýnt að breyta lagaákvæðum sem leggja háa tolla á innflutning á tíma þegar lítið er til af innlendri framleiðslu.

Innlendir dreifingaraðilar hafa undanfarna viku fengið innan við 10% upp í pantanir sínar af blómkáli og spergilkáli og ekkert sellerí. Fram til 15. október leggjast háir tollar á þessar vörur. Á allt þetta grænmeti er lagður 30% verðtollur en að auki fastur magntollur á kíló sem er  176 krónur fyrir blómkál og spergilkál og 276 krónur fyrir sellerí. Þetta getur valdið tvö- til þreföldun á innkaupsverði varanna.

Alþingi setti tollana inn
Árið 2019 flutti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frumvarp sem fól í sér ýmar breytingar á tollaumhverfi innflutnings búvara. Felld voru niður úr búvörulögum ákvæði sem heimiluðu ráðherra að gefa út svokallaðan skortkvóta ef innlenda framleiðslu vantar á markaðinn en þess í stað skilgreind fastákveðin tímabil, sem flytja má inn viðkomandi vöru, aðallega grænmeti, á lægri eða engum tolli. Í frumvarpi ráðherra var gert ráð fyrir að blómkál, spergilkál og sellerí yrði flutt inn án tolla allt árið. Atvinnuveganefnd Alþingis breytti hins vegar frumvarpinu á þann veg að tollar leggjast á þessar vörur hluta ársins; frá 1. júlí til 15 október á spergilkál og frá 15. ágúst til 15 október á blómkál og sellerí. Nefndin þrengdi einnig tímabil tollfrjáls innflutnings á ýmsum öðrum grænmetistegundum verulega frá frumvarpi ráðherra.

FA varaði þá þegar við afleiðingunum og benti á að reglulega myndi koma upp skortur á tilteknum grænmetistegundum. Niðurstaðan yrði annaðhvort að þær yrðu ófáanlegar eða innflutningur yrði á miklu hærra verði en þyrfti að vera, þótt engin innlend vara væri til. Það hefur síðan komið á daginn varðandi t.d. kartöflur, gulrætur, sellerí, blómkál og spergilkál. Dreifingaraðilar hafa áhyggjur af að næst verði skortur á innlendu hvítkáli, en tollar leggjast á hvítkál frá byrjun ágúst og út árið.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem FA hefur aflað sér er líklegt að eitthvað verði flutt inn í næstu viku af blómkáli og spergilkáli til að bæta úr brýnum skorti, en ljóst er að varan verður að minnsta kosti tvöfalt dýrari en hún yrfti að vera vegna hinna háu tolla.

FA hvetur ráðuneyti og þing til að flýta endurskoðun
Samkvæmt þeim breytingum, sem gerðar voru á búvörulögunum 2019 ber sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurmeta tollverndartímabilin á tveggja ára fresti og er nú komið að fyrstu endurskoðuninni. FA hefur hvatt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til að hraða þeirri vinnu.

„Þetta ástand er augljóslega óviðunandi og bitnar hart á neytendum. Varan er ýmist ekki til eða kostar alltof mikið,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdatjóri FA. „Eitt af markmiðum búvörulaga er að nægjanlegt vöruframboð sé ávallt tryggt við breytilegar aðstæður í landinu. Það markmið næst augljóslega ekki eins og lögin eru nú úr garði gerð og blasir við að Alþingi þurfi að breyta þeim. Best væri að það gerðist sem allra fyrst eftir að þing kemur saman í haust.“

Ólafur bendir á að tollvernd sé í raun ónauðsynleg fyrir þessar vörur, blómkál, spergilkál og sellerí. „Innlenda uppskeran selst alltaf upp. Neytendur eru reiðubúnir að greiða fyrir hana talsvert hærra verð en fyrir innflutt grænmeti. Það er einfaldlega engin þörf á verndartollum í þessu tilviki.“

Umfjöllun Morgunblaðsins
Viðtal við Ólaf Stephensen á Bylgjunni
Umfjöllun dv.is

Nýjar fréttir

Innskráning