Blómlegir tollar

16.09.2021

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 16. september 2021.

Tollar á blóm fengu að sitja eftir þegar þarsíðasta ríkisstjórn afnam tolla á „öllum vörum nema matvörum“ eins og það var þá orðað. Rökin fyrir tollum á matvörur eru þau að verið sé að vernda m.a. fæðuöryggi – en það eru bara þeir með allra sérhæfðasta smekkinn sem borða blóm.

Blómatollarnir eru gríðarháir og eru meginorsök þess að verð á blómum er oft og iðulega tvö- til þrefalt hærra en í öðrum Evrópulöndum. Margt er súrt við þessa tollheimtu. Hún verndar til dæmis innan við tíu vinnustaði austur í sveitum, sem rækta innan við tíu tegundir af afskornum blómum – en bitnar á tugum blómaverzlana og heldur uppi verði á neytendavöru, sem ætti ekki að þurfa að vera lúxus.

Tollarnir eru líka lagðir á af fullum þunga þótt hinir fáu innlendu framleiðendur anni ekki eftirspurn fyrir stóra blómadaga eins og konudag og Valentínusardag. Þá neyðast blómaverzlanir til að flytja inn blóm sem eru miklu dýrari en þau þyrftu að vera. Tollarnir leggjast líka á alls konar blóm sem eru alls ekki ræktuð hér á landi og vernda þar af leiðandi ekki neitt, skaða bara verzlun og neytendur.

Fyrir tveimur árum sendi Félag atvinnurekenda, ásamt 25 fyrirtækjum, sem samanlagt standa fyrir mikinn meirihluta blómaverzlunar í landinu,  erindi á fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra og fór fram á endurskoðun á blómatollum. Í tvö ár hefur málið verið „í skoðun“ og verið að „afla gagna“. Með öðrum orðum gerist ekki neitt.

Nú eru aðstæður þannig á heimsmarkaði með blóm að kórónuveirufaraldurinn hefur hægt á uppskeru og flutningum eins og í öðrum greinum og stefnir í verulegar verðhækkanir. Enn mun því blómaverðið hækka – nema stjórnvöld taki sig saman í andlitinu og endurskoði þessa fráleitu skattheimtu.

Nýjar fréttir

Innskráning