Boðar lækkun fasteignaskatts og einkavæðingu

05.05.2022
Ólafur og Þórdís Lóa ræða saman í Kaffikróknum

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar segist vilja lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði og ráðast í einkavæðingu borgarfyrirtækja og útvistun verkefna til einkafyrirtækja. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA ræðir við Þórdísi í Kaffikróknum, hlaðvarpsþætti FA, sem er aðgengilegur á YouTube og Spotify. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Mikilvægt að bæta þjónustu og skapa traust
Þórdís segir mikilvægt að skapa traust á milli fyrirtækjanna í Reykjavík og borgaryfirvalda. Í vinnu við mótun atvinnu- og nýsköpunarstefnu fyrir Reykjavík, sem Þórdís stýrði, kom fram að vantraust og tortryggni ríkti á milli atvinnulífsins og borgarinnar. Það sé áskorun sem þurfi að takast á við. „Mér fannst dálítið kjarkað að taka þennan fókus; að stilla stefnunni upp út frá áskorunum borgarinnar. Við ætlum að mæta þeim.“

Þórdís segir að þetta taki tíma, að bæta og straumlínulaga þjónustu við fyrirtækin og gera hana stafræna taki til dæmis lengri tíma en eitt kjörtímabil. Viðreisn vill að borgin setji sér metnaðarfull markmið um afgreiðslu erinda fyrirtækja, til dæmis vegna leyfisveitinga. Þórdís Lóa nefnir sem dæmi að í Helsinki sé ævinlega staðið við frest um afgreiðslu innan fimm vikna. „Við þurfum að finna leið til að gera þetta einfaldara og þess vegna þarf kerfið að skilja þarfir atvinnulífsins,“ segir hún og tekur dæmi um samstarf um bætta vörudreifingu í miðbænum, sem FA hafði frumkvæði að árið 2018. „Með því að vinna svona saman læra allir aðilar á þarfir hinna.“

Viðreisn lofar lækkun á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði. Þórdís Lóa segist vilja lækka hann úr 1,6% af fasteignamati, sem er hæsta hlutfall á höfuðborgarsvæðinu, í 1,55%.

Ferðaþjónustan nýti bílastæðahúsin á nóttunni
Viðreisn boðar víðtæka einkavæðingu borgarfyrirtækja og aukna útvistun verkefna á vegum borgarinnar til einkafyrirtækja. Þórdís Lóa segir að augljósasti kosturinn varðandi einkavæðingu sé Malbikunarstöðin Höfði. „Okkur finnst ekki eðlilegt að vera í þessum samkeppnisrekstri,“ segir Þórdís Lóa. Hún nefnir einnig bílastæðahús borgarinnar, sem séu ekki nógu vel nýtt. Með samstarfi við ferðaþjónustuna megi koma því þannig fyrir að bílastæðahúsin séu nýtt af bílaleigubílum ferðamanna á nóttunni í stað þess að þeir taki upp stæði í íbúðahverfum. „Eitthvert fyrirtæki er miklu snarpara og betra í þessu en borgin.“ Þá séu mikil tækifæri til dæmis í útboðum á matarþjónustu í félagsmiðstöðvum, þar sem bjóða megi upp á fjölbreyttari og betri mat.

Eðlilegt að borgin gangi á undan í vinnutimastyttingu
Þórdís Lóa tekur ekki undir það að síðustu samningar við starfsmenn sveitarfélaga hafi verið of dýrir vegna ríflegri styttingar vinnutíma en á almenna vinnumarkaðnum og ekki heldur að óeðlilegt sé að hið opinbera gangi þannig á undan í kjarabótum. „Þetta eru dýrir samningar, það er staðreynd, en að mínu mati voru þeir líka nauðsynlegir. Það var kominn tími á að hækka lægstu launin.“

Styttingu vinnuvikunnar segir hún lífsgæðamál fremur en kjaramál. „Mér finnst algjörlega eðlilegt að sveitarfélögin og opinberir aðilar gangi þar á undan, af því að annars myndi þetta örugglega ekki gerast. Þetta kostar peninga – ekki kannski beinharða peninga en kostar samt í kerfinu – og kallar á skruðninga og yfirgangstímabil, en þetta sparar til lengri tíma,“ segir Þórdís Lóa og vísar þar til þess að stytting vinnuvikunnar dragi úr veikindum og kulnun. „Ef það gerist ekki, erum við að gera eitthvað rangt.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning