Bognar Bjarni undan hagsmunaþrýstingi?

25.05.2023

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á Vísi 25. mars 2023.

Eftir sex daga, hinn 31. maí, fellur úr gildi bráðabirgðaákvæði í tollalögum, sem fellir niður tolla af öllum vörum frá Úkraínu. Ákvæðið var sett í lög í fyrravor, að tillögu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem flutti frumvarp um málið. Tilefni lagasetningarinnar var beiðni Úkraínu til EFTA-ríkjanna um niðurfellingu tolla á úkraínskum vörum.  Í beiðninni kom fram að innrás Rússa hefði leitt til þess að lokazt hefði fyrir útflutning frá Úkraínu um hafnir landsins við Svartahaf. Í þeim tilgangi að halda efnahag landsins gangandi þrátt fyrir stríðsátök leituðu stjórnvöld í Úkraínu leiða til að auka útflutning yfir þau landamæri ríkisins sem liggja að ríkjum í Evrópu og styrkja þannig efnahag landsins, sem hefur orðið fyrir miklum áföllum vegna innrásar Rússa. Til að greiða fyrir þessu felldi Úkraína sjálf niður alla tolla á innflutningi.

ESB og Bretland framlengja tollfrelsið
Í greinargerð með frumvarpi Bjarna sagði: „Meginmarkmið með frumvarpi þessu er að Ísland sýni stuðning sinn við Úkraínu í verki og geri nauðsynlegar breytingar á lögum í þeim tilgangi að greiða fyrir viðskiptum á þeim erfiðu tímum sem ríkið gengur í gegnum. Einnig er vert að hafa í huga að hér fetar Ísland í fótspor Evrópusambandsins og Bretlands sem þegar hafa orðið við beiðni Úkraínu.“

Bretland ákvað í febrúar síðastliðnum að framlengja tollfrelsi á úkraínskum vörum út árið. Evrópusambandið ákvað í apríl að framlengja tollfríðindin um ár. Ekkert bólar hins vegar á nýju frumvarpi frá fjármálaráðherranum, þótt tíminn til að framlengja bráðabirgðaákvæðið sé orðinn afar knappur. Á því er einföld skýring; hann og aðrir ráðherrar og stjórnarþingmenn eru undir gríðarlegum þrýstingi frá hagsmunaaðilum í landbúnaði að framlengja ekki tollfrelsi vara frá Úkraínu.

Hagsmunaþrýstingur vegna 2-3% af markaðnum
Samtök fyrirtækja í landbúnaði sendu Bjarna formlegt erindi í byrjun þessa mánaðar og lögðust gegn framlengingu tollfrelsisins. Ástæðan er einkum sögð sú að ódýr kjúklingur frá Úkraínu geti veitt íslenzkum kjúklingaframleiðendum samkeppni.

Í drögum að minnisblaði matvælaráðuneytisins um áhrif niðurfellingar tollanna undanfarið ár kemur fram að innflutningur frá Úkraínu hafi aukizt um 50% á milli áranna 2021 og 2022. Meirihluti innflutningsins er iðnvarningur. Hlutfall búvara af innflutningnum var 9% og tvöfaldaðist á milli ára. Frá miðjum júní í fyrra, þegar tollarnir voru felldir niður, og þar til í marz síðastliðnum, voru fluttar inn úkraínskar búvörur fyrir heilar 93 milljónir króna, aðallega kjúklingur. „Á tímabilinu hefur úkraínskur kjúklingur verið innan við 10% af heildarinnflutningi og ef gera má ráð fyrir svipaðri þróun á magni næstu mánuði væri markaðshlutdeild kjúklingakjöts frá Úkraínu í kringum 2-3% á innlendum markaði yfir 12 mánaða tímabil,“ segir í plaggi matvælaráðuneytisins.

Þar er jafnframt sett fram það mat að ólíklegt sé að innflutningurinn hafi mikil áhrif á verð á innlendu kjúklingakjöti, enda sé um hlutfallslega lítið magn að ræða. Það breytir ekki því að neytendur hafa á undanförnum mánuðum séð úkraínskt kjúklingakjöt í frystiborðum stórmarkaða á verði sem ekki hefur sézt áður – vegna tollfrelsisins.

Hvernig skýra ráðherrar viðsnúninginn fyrir Úkraínumönnum?
Það má undrum sæta ef fjármálaráðherrann hefur ekki meira bein í nefinu en svo að hann lúffi fyrir þrýstingi frá hagsmunaaðilum í landbúnaði og láti hjá líða að leggja til endurnýjun á löggjöf, sem hefur bæði falið í sér stuðning við okkar stríðshrjáða vinaríki Úkraínu og bættan hag neytenda. Og það vegna viðskipta, sem nema 2-3% af markaði fyrir kjúklingakjöt!

Sömuleiðis má velta fyrir sér hvernig samráðherrar Bjarna, þær Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, hyggjast útskýra fyrir úkraínskum kollegum sínum á næsta alþjóðlega fundi að Ísland hafi ákveðið að falla frá þessum stuðningi við Úkraínu vegna þrýstings frá litlum sérhagsmunahópi. Er það í stíl við að halda leiðtogafundi og vera þjóð meðal þjóða? Er virkilega svona auðvelt að beygja íslenzk stjórnvöld í öðru eins prinsippmáli?

Grein Ólafs á Vísi

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning