Boltinn er hjá borginni

18.11.2023

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 15. nóvember

Óhætt er að segja að mörg fyrirtæki í innflutningi og útflutningi séu með óbragð í munni eftir að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samskipa var birt og staðreyndir um samráð stóru skipafélaganna liggja fyrir. Fæstir viðskiptavina Eimskips og Samskipa borga reikningana glaðir þessa dagana.

Alveg burtséð frá samráðsmálinu stóra hefur óánægja fyrirtækja farið vaxandi vegna takmarkaðrar samkeppni í skipaflutningum og sífellt hækkandi flutningskostnaðar. Samráðið og viðurlögin við því eru í rauninni mál fortíðar. Það sem skiptir meginmáli núna er að opna flutningamarkaðinn fyrir aukinni samkeppni.

Í framhaldi af ákvörðun sinni í máli Samskipa beindi Samkeppniseftirlitið (SE) áliti til innviðaráðherra, Faxaflóahafna, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga og hvatti þessa aðila til að grípa til aðgerða til að efla samkeppni í flutningum. Miklu máli skiptir hvernig þessir opinberu aðilar bregðast við.

Á meðal lykiltilmæla SE er að tryggt verði að nýir og minni aðilar geti fengið aðstöðu og viðeigandi þjónustu í Sundahöfn og eftir atvikum öðrum höfnum, sem geri þeim kleift að keppa án mismununar við stærri aðila í sjóflutningum. Þetta þýðir meðal annars að brotin verði upp sú staða sem nú ríkir í Sundahöfn, að stóru skipafélögin tvö eigi löndunarbúnaðinn og rukki keppinauta um himinhá gjöld fyrir þjónustu. Annaðhvort höfnin sjálf eða þá sjálfstæður þriðji aðili þarf að reka löndunarþjónustuna og innheimta fyrir hana sanngjarnt verð þannig að keppinautar stóru félaganna eigi greiðari leið inn á markaðinn.

Reykjavíkurborg er í lykilstöðu til að hafa áhrif á framhald málsins. Borgin fer annars vegar með skipulagsvaldið í Reykjavík, t.d. hvað varðar legu Sundabrautar, og er hins vegar langstærsti eigandi Faxaflóahafna með 75,5% eignarhlut.

Borgin þarf að taka sér stöðu með atvinnulífinu í borginni og neytendum í landinu og beita sér fyrir því að fákeppnisstaðan í Sundahöfn verði brotin upp.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning