Borgin afgreiði mál á innan við 30 dögum

27.04.2022
Ólafur og Hildur ræða saman í Kaffikróknum

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 14. maí, segir að eitt af því sem brenni á atvinnurekendum þegar hún heimsæki fyrirtæki þeirra sé þungt, ósveiganlegt og jafnvel óvinveitt kerfi Reykjavíkurborgar. Hildur vill einfalda þjónustuna og gera hana stafræna og setja 30 daga hámark á afgreiðslutíma mála. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í samtali Hildar og Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Kaffikróknum, hlaðvarpsþætti FA sem má nálgast á YouTube og Spotify. Horfa má á þáttinn í spilaranum hér að neðan. 

Afgreiðslufrestir sligandi vegna fjármagnskostnaðar
Ólafur tiltekur dæmi af einum af félagsmönnum FA sem þurfti að vera í samskiptum við borgina vegna endurnýjunar rekstrarleyfis. Fimm mánuðum og 25 tölvupóstum, símtölum og heimsóknum síðar var málið enn ekki komið í höfn. „Þarna eru alveg svakaleg tækifæri, það sem ég myndi kalla á vondri íslensku „low hanging fruit“, eitthvað sem við getum bætt í borginni,“ segir Hildur. „Afgreiðslufrestir geta verið mjög sligandi fyrir atvinnurekendur, húsbyggjendur og fleiri sem sitja uppi með mikinn fjármagnskostnaði bíðandi eftir afgreiðslu. Við tölum fyrir því að stytta þessa afgreiðslufresti þannig að þeir verði aldrei lengri en 30 dagar. Auðvitað er 30 dagar langur tími, en margir eru að bíða í marga mánuði eftir afgreiðslu sinna erinda. Fyrsta skrefið er að stytta í 30 daga er framtíðarsýnin er að afgreiðslufrestur væri tvær vikur, eins og við sjáum til dæmis hjá byggingafulltrúa í Ósló.“

Hildur segir að nauðsynlegt sé að atvinnurekendur geti afgreitt öll sín mál rafrænt og fengið skýrar leiðbeiningar um hvers sé þörf, t.d. vegna leyfisveitinga, en verulega skorti á að borgin uppfylli sína leiðbeiningaskyldu í þeim efnum.

Atvinnuuppbygging í Keldnalandi og Örfirisey
Hildur segir að eitt af því sem komi upp í samtölum hennar við atvinnurekendur sé skortur á góðum atvinnulóðum. Sjálfstæðismenn vilji bjóða upp á atvinnulóðir á Keldnalandinu og reisa jafnframt nýsköpunarþorp í Örfirisey, hvort tveggja í bland við nýja íbúðabyggð í þessum hverfum. Hvað varðar Örfirisey segir Hildur að þörf verði á þúsundum erlendra sérfræðinga til að standa undir nýsköpun á næstu árum og þeim þurfi að bjóða upp á spennandi borgarumhverfi. Örfirisey sé í grennd við eina alþjóðlega grunnskólann í Reykjavík, Landakotsskóla. Með blandaðri byggð í Keldnalandi megi fjölga vinnustöðum í austurhluta borgarinnar, gera hann sjálfbærari og draga þannig úr umferðarstraumnum sem liggur á milli austur- og vesturhluta borgarinnar kvölds og morgna.

„Þannig að þetta hefur margvísleg jákvæð áhrif, að geta laðað atvinnufyrirtæki, stór fyrirtæki, að því að byggja sínar höfuðstöðvar í borginni en líka að geta boðið fólki atvinnutækifæri nærri sínu heimili,“ segir Hildur. 

Fasteignaskatturinn færist nær 1,4%
Þriðja málið sem brennur á atvinnurekendum að sögn Hildar er skattaumhverfið. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði í Reykjavík eru sá hæsti á höfuðborgarsvæðinu, 1,6% af fasteignamati, en er 1,4% í Hafnarfirði. Aðspurð hvort hún geti nefnt tölu um hæfilegan fasteignaskatt segir Hildur: „Ég er ekki með tölu en ég hef sagt að ég vilji færa okkur nær Hafnarfirði, í þessi 1,4% sem þú nefnir.“

Hildur segir að Sjálfstæðisflokkurinn skilji að hægt sé að lækka skatta á atvinnulífið en stækka samt kökuna sem úr er að moða. „Ef við erum ekki með aðlaðandi umhverfi fyrir atvinnulíf og verðmætasköpun í borginni þá fara þessi fyrirtæki annað og eru ekki að greiða skatta hér í borginni. Við þurfum að skapa þetta aðlaðandi umhverfi, þetta hagstæða skattaumhverfi, þessar atvinnulóðir og þetta einfalda kerfi til að fyrirtækin vilji vera hér og skapa sín verðmæti hér til að íbúarnir okkar eigi tækifærin hér. Þetta hangir allt saman,“ segir Hildur.

Ýmislegt fleira er rætt í spjalli Ólafs og Hildar, til dæmis samgöngumál í borginni, kjarasamningar borgarstarfsmanna, útþensla borgarkerfisins og húsnæðis- og skipulagsmál.

Hlustaðu á þáttinn á Spotify

Nýjar fréttir

Innskráning