Félag atvinnurekenda mótmælir áformum um háar arðgreiðslur Faxaflóahafna til eigenda sinna, sem Reykjavíkurborg hefur farið fram á.
„Við mótmælum því að þjónustugjöld, sem eiga að standa undir eðlilegum rekstri og uppbyggingu hafnanna, séu þannig nýtt sem skattstofn af borgaryfirvöldum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Blaðið sagði frá því í frétt á fimmtudaginn að í greinargerð Reykjavíkurborgar með ársreikningi Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2018 væri bent á að svigrúm fyrirtækisins til aukinna arðgreiðslna til eigenda væri mikið. Reykjavíkurborg er langstærsti eigandi Faxaflóahafna sf. með 75,6% hlut.
Gjaldskrá vörugjalda hækkar umfram verðlag
Framkvæmdastjóri FA bendir á í samtalinu að innflutningsfyrirtæki greiði drjúgan hluta af tekjum Faxaflóahafna í formi vörugjalda. Þeirrar gjaldtöku gæti að sjálfsögðu í verðlagi innfluttra vara. Mikill meirihluti innflutnings til landsins komi í gegnum Faxaflóahafnir. Gjaldskrá vörugjalda hafi hækkað um 17% frá ársbyrjun 2015, eða nærri 6 prósentustig umfram almennar verðlagshækkanir.
„Úr því að borð er fyrir báru hjá Faxaflóahöfnum teljum við eðlilegra að sveitarfélögin sem eiga fyrirtækið slái af gjaldskránni til að leggja sitt af mörkum til verðstöðugleika og auðveldi fyrirtækjum að standa undir launahækkunum vegna nýgerðra kjarasamninga,“ segir Ólafur.
Sveitarfélögin geta ekki verið stikkfrí
Ólafur rifjar upp að ríkisvaldið hafi lækkað skatta á fyrirtæki til að greiða fyrir farsælli niðurstöðu í kjaraviðræðum. Félag atvinnurekenda sendi Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélögum erindi síðastliðið haust, þar sem þau voru hvött til að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði til að leggja jafnframt sitt af mörkum til stöðugleika á vinnumarkaði og í verðlagsmálum.
„Skattbyrði fyrirtækja vegna fasteignagjalda hefur þyngst mjög undanfarin ár vegna gífurlegra hækkana fasteignamats, sem eiga sér sjaldnast nokkra samsvörun í afkomu eða greiðslugetu fyrirtækjanna. Ýmis sveitarfélög brugðust við með lækkunum álagningarprósentu. Það olli okkur miklum vonbrigðum að fá þvert nei frá Reykjavíkurborg, sem innheimtir hæsta lögleyfða fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði eitt sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ólafur í frétt Morgunblaðsins. Þar er jafnframt haft eftir honum að að mati Félags atvinnurekenda geti sveitarfélögin ekki verið stikkfrí í því verkefni að tryggja verðstöðugleika í landinu.
Hafnirnar sjálfum sér nógar
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að eins milljarðs hagnaður hafi verið á rekstri Faxaflóahafna á síðasta ári. Sundahöfn sé megingátt flutninga á vörum til og frá Íslandi. „Á næstu árum er fátt sem bendir til annars en að Faxaflóahafnir sf. geti áfram verið sjálfum sér nógar með rekstur, endurnýjun og nýframkvæmdir,“ segir í greinargerð Gísla Gíslasonar hafnarstjóra með ársreikningi.