Breiðfylking vill breytt landbúnaðarkerfi

29.09.2016

Heilsida buvorusamningar 290916Félag atvinnurekenda og fimm önnur hagsmunasamtök almennings og fyrirtækja birta í dag heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu, þar sem þess er krafist að nýtt Alþingi endurskoði landbúnaðarkerfið, með heildarhagsmuni að leiðarljósi.

FA, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök skattgreiðenda, Viðskiptaráð Íslands og Alþýðusamband Íslands standa fyrir birtingu auglýsingarinnar. Í texta hennar er rifjað upp að þessi samtök óskuðu þess á meðan viðræður um búvörusamninga stóðu enn yfir síðastliðinn vetur að stjórnvöld gættu hagsmuna alls almennings við samningsgerðina, umfram sérhagsmuni einstakra starfsgreina.

Rifjuð eru upp markmið sem samtökin vildu að yrðu sett á oddinn við gerð búvörusamningana, en þau voru byggð á tillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld:

  1. Að lækka matvælaverð
  2. Að tryggja rekstrargrunn landbúnaðar sem atvinnugreinar
  3. Að niðurgreiðslur færðust frá sértækum búgreinastuðningi í átt að almennari jarðræktarstuðningi
  4. Að stuðla að aukinni samkeppni á búvörumarkaði
  5. Að lækka tolla á landbúnaðarvörum um 50% og afnema tolla á alifugla- og svínakjöti

„Alþingi samþykkti hins vegar búvörusamninga til 10 ára án þess að taka tillit til þessara sjónarmiða og gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda,“ segir í yfirlýsingu samtakanna. „Þrátt fyrir að meirihluti atvinnuveganefndar kalli nú eftir þjóðarsamtali um landbúnað með aðkomu neytenda, samtaka launafólks og atvinnulífs er ljóst að loforð um endurskoðun búvörusamninga var brotið. Óskilvirkt og kostnaðarsamt landbúnaðarkerfi hefur verið fest í sessi enda hafa bændur fullt vald til að hafna öllum fleim breytingatillögum sem þeim hugnast illa.“

Fram kemur að það sé „skýr krafa framangreindra samtaka að nýtt þing endurskoði núverandi landbúnaðarkerfi með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Sátt um íslenskan landbúnað er öllum til hagsbóta, ekki síst bændunum sjálfum.“

Fyrirheit rötuðu ekki inn í lögin
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að fyrirheit meirihluta atvinnuveganefndar um að búvörusamningarnir myndi í raun aðeins gilda í þrjú ár og þá tæki við nýtt kerfi, byggt á nýjum vinnubrögðum eða svokölluðu þjóðarsamtali, hafi ekki ratað inn í texta búvörulaganna eins og FA hafi áður bent á. „Nýtt þing verður að tryggja að hér taki við nýtt landbúnaðarkerfi á næsta kjörtímabili og að það verði ekki valkostur að þessir misheppnuðu samningar gildi í tíu ár án breytinga. Það er þungi í þessari kröfu sex hagsmunasamtaka, enda sannkölluð breiðfylking sem vill breytingar á úreltu kerfi.“

 

Nýjar fréttir

Innskráning