Breytingar í viðskiptum við Bretland um áramót

10.12.2020

Ýmsar breytingar verða í viðskiptum við Bretland um áramótin, þegar aðlögunartíma lýkur vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu. Við vekjum athygli á gátlista utanríkisráðuneytisins um það hvað breytist við Brexit og hvað verður óbreytt.

Dýraafurðir ekki lengur í frjálsu flæði
Ef ekki nást sérstakir samningar um annað á milli Breta og ESB mun Bretland verða skilgreint sem þriðja ríki gagnvart ESB/EES frá og með 1. janúar 2021. Það felur m.a. í sér að ferskar dýraafurðir (búfjár- og sjávarafurðir) verða ekki lengur í frjálsu flæði á milli Bretlands og EES og þar með Íslands. Búvörur og sjávarafurðir frá Bretlandi þurfa frá áramótum að sæta landamæraeftirliti hér á landi, hafa heilbrigðisvottorð og vera frá viðurkenndum afurðastöðvum.

Fyrir íslenska útflytjendur dýraafurða til Bretlands verður hins vegar ákveðin aðlögun; um áramót gildir að innflutningur dýraafurða til Bretlands verður tilkynningaskyldur. Frá og með 1. apríl þurfa vörurnar heilbrigðisvottorð og frá og með 1. júlí tekur fullt landamæraeftirlit gildi.

Matvælastofnun (MAST) hefur birt upplýsingar um breytingar varðandi inn- og útflutning dýraafurða á vef sínum, mast.is.

Aðrar matvörur – breyttar merkingar
Breskir birgjar sem flytja út matvörur í neytendaumbúðum til EES-ríkja þurfa að breyta merkingum á  umbúðunum, uppfylli þær ekki nú þegar EES-reglur um merkingu matvæla. Nánari útskýring á reglunum er á vef MAST undir flipanum „upplýsingar um framleiðanda/ábyrgðaraðila“.

Á umbúðum vöru verður að vera tilgreindur ábyrgðaraðili á Evrópska efnahagssvæðinu – og eftir áramót er Bretland ekki lengur á EES. Það dugar því ekki að tilgreina fyrirtæki í Bretlandi sem ábyrgðaraðila, það verður að vera fyrirtæki í EES-ríki. Tilgangurinn með reglum um að tilgreina ábyrgðaraðila í EES á umbúðum er að auðvelt sé að rekja hver ber ábyrgð, reynist vara gölluð eða hættuleg.

FA hefur hvatt aðildarfyrirtæki sín, sem flytja inn matvörur frá Bretlandi, að kanna stöðuna hjá sínum birgjum. Bresk stjórnvöld gáfu um miðjan október út leiðbeiningar fyrir útflytjendur, sem flest fyrirtæki í matvöruútflutningi til EES-ríkja ættu að vera búin að kynna sér. Rétt er að leggja áherslu á að krafan um réttar merkingar á við í öllum EES-ríkjum og það ætti því að vera hagur breskra útflytjenda að hafa þær í lagi. Útflytjendur í Bretlandi eru sumir hverjir með merkingar í lagi nú þegar og merkja vörur sínar með tveimur heimilisföngum; öðru í Bretlandi og hinu hjá ábyrgðaraðila í EES-ríki. Aðrir eru að klára birgðir af umbúðum en eru meðvitaðir um að þeir þurfa að koma merkingum í lag. FA hefur hins vegar haft spurnir af því að sumir útflytjendur hafi ekkert hugsað út í breytingar og er full ástæða fyrir íslensk innflutningsfyrirtæki að ganga úr skugga um að birgjar þeirra séu með sitt á hreinu. Annars geta innflytjendur þurft að endurmerkja vörur með tilheyrandi kostnaði, líkt og við á um vörur frá Bandaríkjunum.

Á fundi hagsmunaaðila með utanríkis- og atvinnuvegaráðuneytum, MAST og Umhverfisstofnun, sem haldinn var í gær, fengust þær upplýsingar að MAST myndi ekki gera athugasemdir við merkingar á matvöru við innflutning, heldur myndu heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna athuga merkingar á breskum vörum í markaðseftirliti. Það fylgdi sögunni að heilbrigðiseftirlitin myndu gæta meðalhófs og ekki taka hart á því með viðurlögum þótt vörur uppfylli ekki merkingarkröfurnar í fyrstu, heldur gefa innflytjendum færi á að bæta úr.

Snyrti- og efnavörur – breyttar merkingar
Frá Umhverfisstofnun fengust þær upplýsingar á fundinum að reglur um breyttar merkingar ættu einnig við um snyrtivörur og ýmsar efnavörur. Þar á það sama við og um matvöruna, að tilgreina þarf ábyrgðaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu á umbúðum. Í tilviki snyrtivaranna þarf breski birginn að tryggja að merkingarnar séu í lagi. Efnavörur eru hins vegar langflestar endurmerktar á vegum íslenskra innflytjenda vegna reglna um að viðvaranir á umbúðunum séu á íslensku og þarf þá að ganga úr skugga um að íslensku merkingarnar innihaldi einnig upplýsingar um ábyrgðaraðila á EES. Umhverfisstofnun hefur birt á vef sínum lista yfir þær vörur sem þurfa skoðunar við.

Tollar haldast óbreyttir og samið um gagnkvæma tollkvóta
Ekki stefnir í að framtíðarfríverslunarsamningur við Bretland, sem kæmi í stað EES-samningsins, verði fullgiltur fyrir áramót. Í síðasta mánuði var því gengið frá samkomulagi við Bretland um að bráðabirgðafríverslunarsamningur sem var gerður í fyrra og átti að vera nokkurs konar varaáætlun ef Bretland færi úr ESB án samnings, taki gildi um áramót. Í þessum samningi eru tollar þeir sömu í viðskiptum ríkjanna og þeir hafa verið samkvæmt EES-samningnum og tvíhliða tollasamningi Íslands og ESB um búvöruviðskipti.

Þá skiptast ríkin á gagnkvæmum tollkvótum fyrir búvörur, sem byggjast á viðskiptum undanfarinna ára. Þannig fær Ísland tollfrjálsan kvóta fyrir rúmlega þúsund tonn af búvörum inn á breskan markað; 692 tonn af lambakjöti og 329 tonn af skyri. Á móti fær Bretland tollkvóta hér á landi fyrir 30 tonn af osti og 18 tonn af unnum kjötvörum. FA hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu fyrirspurn um hvernig þessum tollkvótum verði úthlutað og hvenær þeir verði auglýstir, en bíður svars.

Engar líkur eru því á að tollar hækki eða nýir tollmúrar rísi um áramót eða síðar. Þvert á móti er í viðræðunum um fríverslunarsamning til framtíðar verið að ræða frekari fríverslun með fisk og stækkun á tollkvótunum fyrir búvörur. FA hefur áður sagt frá því að breskir birgjar hafi þrýst á innflytjendur hér að panta aukabirgðir fyrir áramót af því að tollar gætu hækkað um áramót, en með samkomulaginu um að bráðabirgðafríverslunarsamningurinn taki gildi, er hættu á slíku afstýrt.

Vörur þurfa að uppfylla ýmis formsatriði
Á vef Skattsins er athygli inn- og útflytjenda vakin á því að þó svo að tollkjör haldist óbreytt gagnvart Bretlandi þurfa upprunavörur að uppfylla ýmis formsatriði til að njóta fríðinda. „Má hér nefna reglu um uppruna, uppsöfnun uppruna, aðvinnslureglur og beinan flutning. Reikna má með að reglan um beinan flutning muni hafa mest áhrif á íslenska út- og innflytjendur. Með reglunni er átt við að vörusendingar skulu fluttar með beinum hætti milli samningsaðila og mega því ekki hafa fengið tollafgreiðslu inn í ríki sem ekki er aðili að samningnum. Það er hins vegar í lagi að vörusending sé í transit tollmeðferð,“ segir á vef  Skattsins.

Litlar líkur á töfum í flutningum
Sú spurning hefur komið upp hvort öngþveiti verði í útflutningi á breskum vörum almennt í upphafi nýs árs og skynsamlegt fyrir innflytjendur að birgja sig upp þess vegna. Náist ekki samningar milli Bretlands og ESB fyrir áramót kann sú staða að koma upp. FA hefur aflað sér upplýsinga jafnt hjá íslenskum og breskum stjórnvöldum og telur litlar líkur á að slíkt muni hafa veruleg áhrif á útflutning til Íslands. Biðraðir og stíflur verða væntanlega fyrst og fremst í Ermarsundshöfnunum og við Ermarsundsgöngin, þ.e. þar sem flutt er út til meginlandsins, en mikill meirihluti útflutnings Breta til Íslands fer með skipum sem sigla beint á milli ríkjanna, án viðkomu í ESB-höfnum. Sama gildir um flugið, sem er yfirleitt beint.

Ekki er hægt að fullyrða að allt muni ganga greiðlega þrátt fyrir að aðlögunartímabilinu ljúki um áramót án framtíðarsamnings Breta við ESB eða við Ísland og hin EFTA-ríkin í EES, óvissan er alltaf nokkur, en óhætt er að slá því föstu að líkurnar á nýjum tollum eru engar og líkur á töfum í milliríkjaviðskiptum eru litlar.

Fréttin birtist fyrst 26. nóvember.
Uppfært 7. desember með upplýsingum um gátlista utanríkisráðuneytisins
Uppfært 10. desember með upplýsingum um lista Umhverfisstofnunar yfir efnavörur
Uppfært 14. desember með upplýsingum af vef Skattsins, m.a. um formsatriði sem upprunavörur þurfa að uppfylla

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning