Brotaþolar í samráðsmálinu skoða stöðu sína

01.09.2023

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samskipa, sem birt var í gær, veitir að mati Félags atvinnurekenda sterkar vísbendingar um að með ólöglegu samráði hafi stóru skipafélögin tvö valdið félagsmönnum FA, fyrirtækjum í innflutningi og útflutningi, stórfelldu tjóni og orðið til þess að mun hærra verð var greitt fyrir flutninga en ef eðlileg samkeppni hefði ríkt á flutningamarkaðnum á því tímabili sem fjallað er um í ákvörðuninni. FA hvetur félagsmenn sína af því tilefni til að íhuga vel stöðu sína gagnvart skipafélögunum og hvort unnt verði að fá tjónið bætt.

Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður, sem gætir hagsmuna ýmissa viðskiptavina skipafélaganna sem koma við sögu í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, hefur ítrekað beiðni sína til SE um aðgang að gögnum málsins, sem varða m.a. meinta skiptingu markaða eftir stærri viðskiptavinum, álagningu gjalda og afsláttarkjör í flutningaþjónustu.

„Upplýsingabeiðni þessi er fyrsta skrefið í þeirri vegferð að sækja bætur fyrir tjón umbjóðenda minna, sem þeir hafa orðið fyrir vegna þeirrar háttsemi sem rakin er í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins,“ segir Páll Rúnar. „Nú þegar skoða nokkur fyrirtæki stöðu sína og viðbúið er að bætist í þeirra hóp á næstu dögum. Þau samskipti sem rakin eru í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og sú háttsemi sem þar er lýst hefur eðilega vakið mikla reiði meðal fyrirtækjanna, sem telja að alvarlega hafi verið á þeim brotið. Það er því ljóst að máli þessu er hvergi nærri lokið. Nú hefst nýr kafli þar sem komið er að brotaþolum að fá sinn hlut réttan og þó fyrr hefði verið. Í samkeppnismálum af þessum toga eru nefnilega bæði gerendur og þolendur.“

FA sendi erindi til SE vegna skipaflutninga
Samkeppni á skipamarkaði gæti verið töluvert virkari að mati FA. Félagið hefur undanfarin misseri fengið margar ábendingar frá félagsmönnum sínum um verðhækkanir á sjóflutningum, ógegnsæjar verðskrár stóru skipafélaganna og lítt rökstudd aukagjöld. Þá hefur FA fengið upplýsingar um mismunun gagnvart viðskiptavinum, sem felst í því að erlendir birgjar fái betri tilboð í sömu flutninga en íslenskir innflytjendur.

Félagið sendi Samkeppniseftirlitinu erindi í síðasta mánuði með ýmsum ábendingum varðandi þessi atriði og fleiri varðandi samkeppni á sjóflutningamarkaði og hvatti SE til að fylgja þeim eftir. Að mati FA koma þar ýmsir þættir til skoðunar, eins og gegnsæi gjaldskráa skipafélaganna og rökstuðningur fyrir hækkunum, möguleg mismunun gagnvart viðskiptavinum og rekstrarfyrirkomulag í stærstu innflutningshöfn landsins.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning