Búum okkur undir Brexit

06.07.2018

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 5. júlí 2018.

Fulltrúar Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins, sem Félag atvinnurekenda rekur, áttu í síðustu viku fund með Ann Linde, Evrópumála- og viðskiptaráðherra Svíþjóðar. Það vakti athygli fulltrúa ÍEV hversu ríka áherzlu ráðherrann lagði á að sænsk fyrirtæki yrðu að búa sig betur undir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Linde mat það svo að Brexit myndi hafa umtalsverð neikvæð áhrif á utanríkisviðskipti Svíþjóðar. Jafnvel þótt Bretland legði enga tolla á vörur frá ESB-ríkjum gæti toll- og landamæraeftirlit orðið tímafrekt og fyrirhafnarsamt og fyrirtæki sem flyttu vörur til og í gegnum Bretland gætu þurft að búa sig undir tafir, þyrftu jafnvel að huga að auknu vörugeymsluplássi og þar fram eftir götum.

Ef svo fer að Bretland yfirgefur bæði innri markað og tollabandalag ESB býr það til ýmis vandamál fyrir íslenzk fyrirtæki. Samkvæmt reglum EES-samningsins hefur t.d. verið hægt að flytja út íslenzkar sjávarafurðir til ESB-ríkja án þess að þær sæti heilbrigðiseftirliti á landamærum. Þetta gæti breytzt, með tilheyrandi töfum og kostnaði, en hraðinn skiptir auðvitað lykilmáli í útflutningi á ferskum fiski. Stór hluti útflutnings á ferskfiski til annarra ESB-ríkja fer fram í gegnum Bretland. Lausn á því hvernig farið verður með slíka flutninga eftir Brexit er ekki í sjónmáli.

Í umræðunni um Brexit hér á landi er því oft haldið á lofti að tækifæri felist í stöðunni fyrir íslenzkt atvinnulíf, til dæmis í því að semja við Bretland um fulla fríverzlun með sjávarafurðir. Það er engin ástæða til að gera lítið úr slíkum tækifærum, og um að gera að vera bjartsýn, en staðreyndin er þó að neikvæð áhrif Brexit geta verið bæði nær í tíma og vegið þyngra en tækifærin í stöðunni. Það er full ástæða til að íslenzk fyrirtæki búi sig vel undir þann veruleika.

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning