Búvörusamningur gæti bakað ríkinu skaðabótaskyldu

03.03.2016

IMG_2490Fulltrúar Félags atvinnurekenda mættu á opinn fund fjárlaganefndar Alþingis í gær til að ræða nýgerða búvörusamninga ríkisins og bænda. Á meðal þess sem FA benti fjárlaganefnd á var að ákvæði í 12. grein samningsins um starfsskilyrði nautgriparæktar gætu farið í bága við EES-samninginn og bakað ríkinu skaðabótaskyldu í framtíðinni, fari svo að Alþingi staðfesti samninginn.

Í minnispunktum sem FA sendi fjárlaganefnd fyrir fundinn er rifjað upp að Dr. Gjermund Mathiesen, yfirmaður samkeppnismála hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hélt erindi á opnum fundi í Reykjavík 18. febrúar síðastliðinn, þar sem hann deildi þeirri afstöðu ESA að ákveðnar mjólkurvörur, einkum rjómi, skyr og jógúrt, heyrðu undir samkeppnisákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.

Skrifað undir daginn eftir yfirlýsingu ESA
„Ætla mætti að þessi yfirlýsing hefði haft í för með sér ítarlega skoðun á þessum málaflokki innan viðkomandi ráðuneyta. Degi síðar, þann 19. febrúar, var hins vegar skrifað undir nýjan búvörusamning þar sem verðsamráð og undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum er fest í sessi,“ segir í minnisblaði FA. „Ef það verðsamráð sem þarna um ræðir reynist ólögmætt blasir við að það muni skapa ríkinu skaðabótaskyldu enda er fullljóst að íslenska ríkið er grandsamt um þetta ólögmæti og hefur í raun látið það sig engu varða. Þessum upplýsingum er hér með komið á framfæri við Alþingi og er það upplýst um þessa stöðu áður en að þessi samningur er fullnustaður. Þar með mun íslenska ríkið ekki, þegar fram líða stundir, geta látið sem svo að það hafi verið grandlaust um þessa stöðu eða að ólögmæt háttsemi þess sé óviljaverk.“

Páll Rúnar Mikael Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, sem er lögmaður FA, segir að þetta sæti ákveðinni furðu. „Við því mætti með réttu búast að ábendingar svo áhrifamikils aðila séu teknar til gaumgæfilegrar skoðunar. Ef í ljós kemur að þetta verðsamráð er í reynd ólögmætt þá blasir við að þeir sem eru að greiða of hátt verð á grundvelli þess kunna að eiga bótakröfu á hendur þeim sem stunda þetta samráð. Þá væri ríkið þar fyrir utan mögulega orðið einhvers konar hlutdeildarmaður í samkeppnislagabroti sem er stórfurðuleg staða,“ segir Páll Rúnar.

Útúrsnúningur að tala um samráð
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra hélt því nýlega fram á Alþingi að haft hefði verið samráð við FA og fleiri samtök atvinnurekenda og stéttarfélaga á vinnumarkaði, auk Neytendasamtakanna, við gerð búvörusamninganna. Þessu vísuðu fulltrúar FA og fleiri samtaka eindregið á bug á fundinum með fjárlaganefnd. Í minnisblaði FA til nefndarinnar segir að félagið hafi verið í óformlegum hópi hagsmunasamtaka, sem hafi komið á framfæri við landbúnaðarráðherra, fjármálaráðherra og forystu Bændasamtakanna minnisblaði, þar sem hvatt var til þess að tekið yrði tillit til tillagna Samráðsvettvangs um aukna hagsæld við gerð búvörusamninganna. Niðurstaðan hafi hins vegar orðið sú að þær tillögur hafi hvergi nærri náð fram að ganga í samningunum.

„Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra segir í ræðustól Alþingis að haft hafi verið samráð við ýmsa aðila við gerð búvörusamninganna, þar með talið Félag atvinnurekenda, er það augljóslega útúrsnúningur,“ segir í minnisblaði FA. „FA og fleiri samtök voru upplýst um stöðu mála í mjög grófum dráttum, en þeim ekki gefið tækifæri til að hafa nein áhrif á efni samninganna.“

Minnisblað FA til fjárlaganefndar

Viðtal við Pál Rúnar M. Kristjánsson á RÚV

Nýjar fréttir

Innskráning