Búvörusamningur í þágu neytenda?

08.09.2016

Heilsida buvorusamnFélag atvinnurekenda birtir í dag heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu, þar sem tekið er dæmi um hækkun kostnaðarverðs innflytjanda á osti, sem fluttur er inn til landsins á fullum tollum. Í búvörusamningi, sem Alþingi tekur til lokameðferðar á næstu dögum, eru ákvæði um að landbúnaðarráðherra muni beita sér fyrir hækkun tolla á innfluttum mjólkurvörum, þar með töldum ostum.

Í dæminu sem tekið er í auglýsingunni er innkaupsverð ostsins 500 krónur á kíló, sem er ekki óalgengt verð. Þar ofan á hefur til þessa lagst 30% verðtollur og 430 króna magntollur á kíló. Þá er kostnaðarverðið á kílói af osti komið í 1.080 krónur, hefur rúmlega tvöfaldast. Samkvæmt ákvæðinu í búvörusamningunum verður magntollurinn hækkaður í 715 krónur á kíló. Ostkílóið er þá komið í 1.365 krónur og verð þess hefur hartnær þrefaldast.

Í auglýsingunni er bent á að í þessu dæmi sé ekki búið að taka tillit til annarra opinberra gjalda og álagningar. Verðhækkunin til neytandans verður því enn meiri, nái þessi ákvæði búvörusamningsins fram að ganga.

„Við töldum ástæðu til að neytendur fengju að sjá hvaða áhrif búvörusamningurinn og lagabreytingar sem á að gera vegna hans hafa á verð á osti sem fluttur er til landsins,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Mest af innfluttum osti er flutt inn á svokölluðum tollkvótum samkvæmt alþjóðasamningum. Þeir duga hins vegar ekki alltaf til að anna eftirspurn. Með þessari tollahækkun er í raun verið að koma í veg fyrir að innflytjendur geti flutt inn hluta af sínum innflutningi á fullum gjöldum. Tollarnir verða svo svívirðilega háir að sá innflutningur verður ekki samkeppnishæfur. Að einhverjum detti í hug að þetta sé í þágu neytenda er í meira lagi furðulegt.“

Ólafur segir að FA hvetji Alþingi til að samþykkja ekki það ákvæði búvörusamninganna sem kveður á um hækkun tolla á mjólkurvörum. „Það er í rauninni alveg yfirgengilegt að íslenska ríkið skuli semja við einn einkaaðila, sem eru Bændasamtökin, um að hækka skatta á öðrum einkaaðilum, sem eru innflytjendur á mjólkurvöru. Aðrar atvinnugreinar í landinu njóta ekki þeirra forréttinda að geta samið við ríkið um að hækka skatta á keppinautana.“

 

Nýjar fréttir

Innskráning