Costco-áhrifin

10.08.2017

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Viðskiptablaðinu 10. ágúst 2017.

Verzlunarfyrirtækið Costco nýtur mikillar velvildar hjá íslenzkum almenningi. Hún er verðskulduð; Costco hefur hrist rækilega upp í dagvörumarkaðnum, neytendum til hagsbóta.

Ein ástæða þess að verzlanakeðjur eins og Costco og H&M vilja koma til Íslands er niðurfelling tolla og vörugjalda, sem hefur verið baráttumál íslenzkrar verzlunar. Hún á að taka erlendri samkeppni af hugrekki og fagna henni sem drifkrafti breytinga.

Velvild í garð Costco má hins vegar ekki verða til þess að stofnanir ríkisins beiti regluverki íslenzks markaðar með einhverjum öðrum hætti gagnvart fyrirtækinu en innlendum keppinautum. Nýlega var bent á að Costco færi ekki að reglum um merkingar á vörum. Félag atvinnurekenda hefur bent á að þær reglur séu of stífar – en það er grundvallaratriði að eftirlitsstofnanir sjái til þess að gildandi regluverk gangi yfir alla. Krafa um íslenzkar merkingar á hreinsiefnum getur til dæmis hækkað verð þeirra um 15-30%. Sá sem kemst upp með að fylgja ekki reglunum stendur augljóslega sterkar í samkeppni við þann sem fylgir þeim í hvívetna.

Afstaða stjórnvalda má heldur ekki hindra nauðsynlegar breytingar og hagræðingu í verzluninni, sem aukin samkeppni leiðir óhjákvæmilega af sér. Samkeppniseftirlitið hefur bent á að þegar það tók afstöðu til samruna Haga og Lyfju hafi lítil reynsla verið komin á Costco-áhrifin. Það blasir hins vegar við að taka þurfi tillit til þeirra við mat á fleiri samrunum fyrirtækja í verzlun.

Það verður sömuleiðis áleitin spurning fyrir samkeppnisyfirvöld hvort og hvenær skilgreina eigi Costco sem markaðsráðandi í krafti gífurlegs fjárhagslegs styrks á alþjóðavísu. Það blasir við að Costco selur ýmsar vörur undir kostnaðarverði, sem markaðsráðandi fyrirtækjum er óheimilt að gera.

Costco-áhrifin eru góð, en það er lykilatriði að allir spili eftir sömu reglum. Svo er alltaf góð hugmynd að breyta slæmum reglum.

 

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning