Dómsmálaráðherra: Hugsanlega leitað til EFTA-dómstólsins vegna áfengiseinkasölu

10.02.2022
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. (Mynd: Alþingi)

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði á streymisfundi Félags atvinnurekenda í dag, „gerjun á áfengismarkaði“, að hann myndi í þessari viku eða þeirri næstu skipa hóp sérfræðinga sem ætti að skila honum lögfræðiáliti um álitamál varðandi einkarétt ríkisins á smásölu áfengis. Í framhaldinu yrði mögulega kallað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, og svo gæti farið að Alþingi kæmist hjá ekki hjá því að taka á málinu. Farið hefði verið í þessa vinnu m.a. eftir að FA sendi ráðherra erindi og hann átti fund með forsvarsmönnum félagsins. Upptöku af fundinum má sjá í spilaranum hér að neðan.

Efast um að lýðheilsusjónarmið að baki undanþágu frá EES eigi lengur við
Í EES-samningnum er Íslandi veitt undanþága frá ákvæðum um frjáls vöruviðskipti til að reka ríkiseinkasölu með áfengi, á grundvelli lýðheilsusjónarmiða. „Ég held það sé alveg sama hvernig við lítum á það, það hlýtur að vera orðið mjög umdeilt að þessi lýðheilsusjónarmið sem á sínum tíma voru lögð til grundvallar, eigi hreinlega við í dag,“ sagði dómsmálaráðherrann og nefndi stóraukið aðgengi og bætta þjónustu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, fjölgun útsölustaða, aukna upplýsingagjöf og meira úrval. ÁTVR stundaði nútíma markaðssetningu og gerði allt til að selja meira.

Ráðherra boðaði að hann myndi fljótlega leggja fram á ný frumvarp um að leyfa minni ölbrugghúsum að selja gestum sínum áfengi á framleiðslustað. Það frumvarp hefði verið ákveðin málamiðlun á milli Sjálfstæðisflokksins, sem vildi afnema einkarétt ríkisins og opna markaðinn, og samstarfsflokka hans í ríkisstjórn. „Það hljóta margir að spyrja sig spurninga, hversu réttlætanlegt það er að stíga bara þetta hænuskref í þá átt sem við viljum stefna. En maður fylgir stundum þeirri stefnu að reyna að borða fílinn í fleiri bitum, þó ég hyggi á stærri skref í þessu. En á sama tíma verð ég að vera meðvitaður um að við erum kannski í vandræðum með okkar samstarfsflokka í meirihlutanum og reyndar út fyrir það – það hafa verið eitthvað skiptar skoðanir innan okkar eigin flokks, þó ég telji að það sé yfirstíganlegt,“ sagði Jón.

Vinnuhópur verði skipaður á næstu dögum
Hann sagðist hafa átt góðan fund á dögunum með forsvarsmönnum FA þar sem farið hefði verið yfir málin. „Í framhaldi af því höfum við ákveðið að stíga þau skref hér að við erum að fara að setja saman vinnuhóp, nefnd – nú tek ég fram að það er ekki hugmyndin að svæfa málið í enn einni nefndinni, heldur ætlum við að setja saman hóp sérfræðinga í Evrópurétti til þess að svara ýmsum krefjandi spurningum fyrir okkur með lögfræðiáliti. Þetta verður fólk utan ráðuneytisins. Sú vinna [að skipa hópinn] er í gangi núna og ég vænti þess að komin verði niðurstaða öðru hvoru megin við helgina. Mér liggur á eins og þið vitið og mun vilja fá einhverja niðurstöðu í þessa vinnu á mjög skömmum tíma,“ sagði dómsmálaráðherra.

Hann sagði að svara þyrfti krefjandi spurningum, meðal annars spurningum um lögmæti netverslunar með áfengi, sem FA hefur beint að ráðuneytinu. „Þetta eru spurningar sem við viljum fá svör við. Hvar stöndum við í þessu, hvar stöndum við gagnvart þessari einkasölu á þeim forsendum sem lágu til grundvallar henni? Hvar stöndum við með þessa nýju sviðsmynd sem við okkur blasir í netsölunni og margt annað sem að þessu snýr? Þetta er tilraun mín til að sýna fram á þær ógöngur sem við erum komin í og að mínu mati þá rökleysu sem liggur að baki núverandi ástandi. Það er mín persónulega skoðun og hún hefur svo sem enga vigt umfram það sem það er, en ég ætla að reyna að laða fram einhver álit meiri sérfræðinga í þessu. Þetta gæti mögulega leitt til þess að við myndum leita eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum og sjá hvort með þessari leið við getum kallað fram umræður og þá stöðu að þingið verði í raun að taka málið á dagskrá, verði að taka það til umfjöllunar og ræða mögulegar breytingar,“ sagði Jón Gunnarsson.

Ómöguleg staða bæði í sölu og auglýsingum
Jón sagðist þeirrar skoðunar að núverandi staða á markaðnum væri ómöguleg, bæði varðandi sölu og áfengisauglýsingar. Markaðurinn væri nánast opinn; fólk gæti pantað sér áfengi hvaðan sem væri í heiminum, netsala hefði rutt sér til rúms með afhendingu innan nokkurra klukkutíma og auðvelt væri að nálgast áfengi á vínveitingahúsum eða búðum ÁTVR. „Og þá kemur maður aftur að þessari spurningu: Hvernig standast þessi lýðheilsusjónarmið sem grundvöllur þeirrar undanþágu sem við fengum? Það stenst bara illa að mínu mati.“

Ráðherrann benti á að áfengisauglýsingar flæddu sömuleiðis um markaðinn þrátt fyrir auglýsingabann, til dæmis á vefmiðlum og í formi léttölsauglýsinga. „Við erum bara komin í algjörar ógöngur og Alþingi Íslendinga hefði fyrir löngu þurft að vera búið að bregðast við þessu en það hefur bara verið algjör pattstaða. Þetta er svo sem ekki eina málið sem lendir í skrúfunni hjá Alþingi en það ber alla ábyrgð hér. Við þurfum einhvern veginn að búa til núna það umhverfi og skapa þá umræðu að þessi staða verði öllum ljós, allir átti sig á hvað hér er undir og leiða þannig mögulega fram einhverjar breytingar á löggjöf sem þetta varðar.“

Jón Gunnarsson sagðist telja að almenningur sæi í auknum mæli fáránleikann á þessu sviði.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning