Dómstólaleiðin ein fær?

15.06.2017

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 15. júní 2017.

Atvinnurekandi í Reykjavík, sem árið 2013 rak lítið fyrirtæki í húsnæði með 100 milljóna króna fasteignamati, greiddi 1.650 þúsund krónur í fasteignagjöld til borgarinnar. Á næsta ári mun sami atvinnurekandi greiða tæplega milljón krónum meira, í takt við 55% hækkun fasteignamats á höfuðborgarsvæðinu.

Með hækkunum fasteignamats þyngist skattbyrði fyrirtækjanna í landinu sjálfkrafa um milljarða króna. Á næsta ári munu sveitarfélögin að óbreyttu taka af fyrirtækjunum um 3,3 milljörðum króna meira en í fyrra.

Í rekstri margra fyrirtækja hefur ekkert gerzt sem auðveldar þeim að standa undir þessari auknu skattbyrði. Flest fyrirtæki ætla sér ekki að selja húsnæðið sem þau starfa í og fá engan söluhagnað. Hjá félögum sem starfa við útleigu atvinnuhúsnæðis fer fasteignagjaldið hækkandi sem hlutfall af tekjum. Fasteignagjaldið er í eðli sínu vondur skattur, sem leggst á eigið fé fyrirtækja alveg burtséð frá afkomu þeirra.

Félag atvinnurekenda hefur í þrígang undanfarið ár skorað á sveitarfélög að lækka álagningarprósentuna til að koma til móts við gífurlegar hækkanir á fasteignamatinu. Sveitarstjórnir hafa enn sem komið er daufheyrzt við slíkum áskorunum. Þá hefur FA beðið sveitarfélögunum um rökstuðning fyrir því að þau beiti fjórðungsálagi á fasteignagjald á atvinnuhúsnæði og kostnaðarútreikninga sem liggi að baki slíkri ákvörðun.

Í greinargerð með lögum um tekjustofna sveitarfélaga var nefnilega tekið skýrt fram að fasteignagjaldið væri þjónustugjald, en ekki eignarskattur. Ætli menn að beita álaginu hlýtur að þurfa að rökstyðja það með hærri kostnaði við að þjónusta fyrirtækin. Skemmst er frá því að segja að enginn slíkur rökstuðningur eða kostnaðarútreikningur hefur verið færður fram.

Fyrirtæki innan FA undirbúa nú málsókn gegn Reykjavíkurborg vegna ýmissa álitamála varðandi útreikning og álagningu fasteignagjalda. Illu heilli er það svo að dómstólaleiðin virðist oft eina leið fyrirtækjanna í landinu til að rétta hlut sinn gagnvart stjórnsýslunni.

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning