Það er mat Félags atvinnurekenda að sá dómur hafi mjög lítið fordæmisgildi þar sem mikilvægar málsástæður vantaði í málið og málið varðaði rekstrarleigusamninga. Enn ríkir mikil óvissa hjá þeim sem málið varðar en mikill munur er á hvort samningur sem gerður var í upphafi standi fyrir rekstrarleigu eða fjármögnunarleigu. Fyrirkomulagið er ekki hið sama og getur skýr kaupréttur í lok samningstímans haft úrslitaþýðingu. Áður en upp kom ágreiningur um lögmæti gengistryggingar var þessi kaupréttur ávallt virtur af Lýsingu, þegar um var að ræða fjármögnunarleigusamninga. Lýsing hefur hins vegar í seinni tíð hafnað því að um kauprétt sé að ræða. Erfitt getur verið fyrir lántaka að sanna kaupréttinn þar sem hann kemur almennt ekki fram á lánaskjölum og Lýsing vill ekki kannast við að hafa gert munnlegt samkomulag um kauprétti við viðskiptavini sína. Því er ljóst að að sá sem getur sannað kauprétt er í annarri og líklega betri stöðu en sá sem ekki getur fært sönnur fyrir því.