Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu umsögn um drög að tveimur frumvörpum; annars vegar til laga um Matvælastofnun og hins vegar til breytingar á lögum um matvæli og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
FA gerir athugasemdir við ýmsa liði frumvarpanna. Félagið rifjar meðal annars upp álitamál sem upp kom í verkfalli dýralækna og fleiri opinberra starfsmanna vorið 2015. Matvörufyrirtækið Innnes sendi þá Matvælastofnun erindi þar sem því var mótmælt sem fram hafði komið af hálfu stofnunarinnar að verkfall dýralækna þýddi að Matvælastofnun gæti ekki stimplað nauðsynleg skjöl vegna innflutnings matvöru frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Í fyrsta lagi væri engin lagaleg krafa til þess að það þurfi að vera innlendur dýralæknir sem stimpli skjölin, en heilbrigðisvottorð með vörum frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eru gefin út af þarlendum dýralæknum, í samræmi við sömu heilbrigðisreglur og gilda á Íslandi. Þá þurfi þessar vörur enga aðkomu dýralækna hvað nokkuð annað varði. Í svarbréfi MAST kom eftirfarandi fram: „Verklagið hjá skrifstofunni hefur verið með þeim hætti að dýralæknar afgreiða þau erindi sem snúa að innflutningi á búfjárdýraafurðum, þrátt fyrir að ekki liggi lögbundin krafa um slíkt.“ (Leturbr. FA)
Í umsögn FA um frumvörpin segir: „Félag atvinnurekenda telur ástæðu til að skýra það við þessa yfirferð á lögum um Matvælastofnun og matvæli að ekki þurfi atbeina dýralækna til að aðgæta hvort vottorð frá kollegum þeirra í öðrum EES-ríkjum fylgi innfluttri matvöru. Ljóst er að stofnunin er í lögvillu hvað þetta atriði varðar og því brýnt að skerpa á lagatextanum til að leiðrétta þann misskilning. Áðurnefnd neitun Matvælastofnunar olli innflytjendum milljóna króna tjóni og brýnt er að afstýra því að slíkt geti endurtekið sig. Utan slíks ástands er líka ljóst að þessi erindrekstur er ekki bara ólögmætur heldur líka óþarfur. Dagsdaglega er þetta fyrirkomulag því einnig skaðlegt. Það leggur óþarfa stein í götu innflytjenda sem og kostnað á stjórnsýsluna sem stendur í tilgangslausum erindagjörðum sem kosta skattgreiðendur mikla fjármuni án nokkurs einasta ábata.“