Dýrari tollkvóti bitnar á neytendum

10.01.2015

Félag atvinnurekenda hefur gert samanburð á niðurstöðum útboða á tollfrjálsum innflutningskvóta á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu fyrir árin 2014 og 2015. Íslenskum stjórnvöldum ber að heimila tollfrjálsan innflutning á takmörkuðu magni frá ESB-ríkjum samkvæmt tvíhliða samkomulagi, sem gert var við ESB á grundvelli 19. greinar EES-samningsins.

 

Í stuttu máli er niðurstaða samanburðarins sú að eftirspurn innflutningsfyrirtækja eftir tollkvóta fer hraðvaxandi og útboðsgjaldið fer hækkandi. Hér má sjá samanburð á eftirspurninni milli ára; hún eykst um allt að 86% og er í ýmsum vöruliðum fjór- til fimmföld miðað við það magn sem er í boði.

  Kvóti í boði, tonn Umsóknir 2014, tonn Umsóknir 2015, tonn Umframeftirspurn 2015, margfeldi Aukning á milli ára, %
Naut

100

334

461

4,6

38,02

Svín

200

615

798

4,0

29,76

Alifuglar

200

820

1043

5,2

27,20

Þurrkað og reykt kjöt

50

45

57

1,1

26,67

Ostur (vöruliður 406)

80

170

254

3,2

49,41

Ostur (svæðisbundnir)

20

37

52

2,6

40,54

Pylsur

50

66

123

2,5

86,36

Elduð kjötvara

50

200

222

4,4

11,00

Ástæður hraðvaxandi eftirspurnar eru í fyrsta lagi aukinn áhugi neytenda á innfluttum búvörum, enda er sambærileg vara oft ekki framleidd á Íslandi. Í öðru lagi annar innlend búvöruframleiðsla ekki eftirspurn í ýmsum vöruflokkum. Í þriðja lagi spilar mikil fjölgun ferðamanna og aukin umsvif í veitingaþjónustu inn í.

 

Aukin eftirspurn þýðir óhjákvæmilega að fyrirtæki bjóða hærra í kvótann til að reyna að tryggja sér hluta af honum. Niðurstöðurnar um meðalverð á kíló af tollkvóta í einstökum vöruflokkum eru eftirfarandi:

  Meðalverð 2014 kr Meðalverð 2015 kr Hækkun á milli ára %
Naut

460

521

13,26

Svín

200

211

5,50

Alifuglar

616

618

0,32

Þurrkað og reykt kjöt (serrano, parmaskinka o.fl.)

120

158

31,67

Ostur (vöruliður 406)

410

443

8,05

Ostur (svæðisbundnir)

434

445

2,53

Pylsur

142

176

23,94

Elduð kjötvara

505

614

21,58

 

Eins og sjá má hækkar verðið á tollkvótanum um 20-30% í sumum vöruflokkum. Þar sem lítil hækkun hefur orðið er útboðsgjaldið í flestum tilvikum einfaldlega komið að þolmörkum; ef innflutningsfyrirtækin byðu hærra væri kostnaðurinn við tollkvótann orðinn hærri en almennur tollur á innflutningi viðkomandi vöru frá ríkjum Evrópusambandsins. Dýrari kvóti veldur því að neytendur verða að greiða hærra verð fyrir vöruna.

 

„Þetta kerfi hefur augljóslega gengið sér til húðar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það þjónar ekki upphaflegum markmiðum um að auka samkeppni við innlendan landbúnað og bæta hag neytenda. Tollkvótarnir eru í mörgum tilvikum hlægilega lágt hlutfall innanlandsneyslu. Eftir því sem útboðsgjaldið hækkar dvínar hagur neytenda af innflutningskvóta, sem upphaflega átti að heita tollfrjáls, en ríkið skattleggur nú um upphæðir sem í sumum tilvikum slaga upp í almennan verndartoll.“

 

Ólafur segir að það sé löngu tímabært að afleggja tollvernd á búvörum, sem ýmist eru ekki framleiddar á Íslandi eða innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn. „Það er algjört lágmark að í viðræðum Íslands og ESB um aukna fríverslun með búvörur, sem eru framundan í næsta mánuði, verði samið um talsverða rýmkun þessara innflutningsheimilda.“

 

Þróun eftirspurnar eftir tollkvóta 2014-2015

 

Þróun verðs á tollkvóta 2014-2015

 

Tilkynning atvinnuvegaráðuneytisins um úthlutun ESB-tollkvóta fyrir 2015

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning