Eðlilegt að gera kröfu um kynhlutlaus klósett

10.05.2022
Ólafur og Dóra Björt ræða saman í Kaffikróknum

Í stefnu Pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar er lögð áhersla á stuðning við nýsköpunarumhverfið og sprotafyrirtæki. Oddviti flokksins er hins vegar efins um að hægt sé að lækka skatta á atvinnuhúsnæði og telur eðlilegt að leggja skyldur á fyrirtæki að gera breytingar á húsnæði sínu til að mæta þörfum kynsegin fólks. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í samtali Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, og Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, oddvita Pírata í Reykjavík, í Kaffikróknum, hlaðvarpsþætti FA á YouTube og Spotify. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Upptekin af nýsköpun
Ólafur bendir á að í stefnu Pírata sé fátt beinlínis um starfsumhverfi fyrirtækja, nema nokkuð ýtarlegur kafli um stuðning við nýsköpun og sprotafyrirtæki. „Við ávörpum málefnin dálítið út frá hugmyndafræðilegum vinkli og segjum ekki endilega fyrir fyrirtæki eða fyrir þennan og annan, en erum með heildarstefnu út frá okkar grunnhugsjón sem er gagnsæi, lýðræði, jafnræði, baráttan gegn spillingu og fagleg vinnubrögð,“ segir Dóra. „Við erum upptekin af nýsköpun, atvinnusköpun og atvinnuþróun og að styðja við hugmyndaauðgi og hina stafrænu umbreytingu, sem er málaflokkur sem við höfum leitt á kjörtímabilinu. Þótt við segjum ekki að þetta sé sérstaklega fyrir fyrirtæki eru þetta auðvitað hlutir sem gagnast fyrirtækjum mjög mikið, til dæmis varðandi gott umhverfi fyrir frumkvöðlafyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki að vaxa í umhverfinu okkar.“

Já og nei er svarið um skattalækkun
Ólafur spyr hvort Píratar væru til í að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í Reykjavík, sem eru þeir hæstu á höfuðborgarsvæðinu. Dóra Björt bendir á að á kjörtímabilinu hafi þeir lækkað úr 1,65% af fasteignamati í 1,6%. „Ég held það sé bara skoðandi hvort það er ástæða til að bregðast við þessu. Ég skil alveg að þetta sé íþyngjandi fyrir fyrirtæki. Við erum ekki teóretískt endilega á móti því og ég held það sé vel skoðandi hvort það ætti að lækka þetta eitthvað örlítið til viðbótar.“ Dóra bendir hins vegar á að það kosti sitt að búa til borgarumhverfi sem sé aðlaðandi fyrir fyrirtæki, m.a. með góðri velferðarþjónustu sem kosti sitt. „Já og nei“ er því svarið við spurningunni.


Eðlilegt að gera kröfu um kynhlutlaus klósett
Dóra og Ólafur ræða fram og aftur um áherslu Pírata á breytingar á reglugerðum um mannvirki í þágu kynsegin fólks. FA hefur gagnrýnt drög umhverfisráðuneytisins að nýrri hollustuháttareglugerð, þar sem lagt er til að fyrirtæki sem eru opin almenningi, t.d. veitingahús, og eru með karla- og kvennaklósett verði skylduð til að bjóða einnig salerni fyrir önnur kyn. Ólafur bendir á að engin greining hafi verið gerð á kostnaði fyrirtækja af slíkri breytingu en hann geti stundum verið mjög mikill.

Dóra Björt segir að umræðan um kostnaðaraukann sé að einhverju leyti á misskilningi byggð. „Ég skil alveg að fólki geti vaxið þetta í augum að eiga að fara í miklar framkvæmdir um leið og þetta tekur gildi. Það er alveg skiljanlegt að það er ekki öllum gefið að ráðast í það. En það er þá hægt að spyrja sig hvort það sé ekki hægt að gera frekar þá kröfu að þetta sé gert við nýbyggingar og breytingar á eldra húsnæði.“

Dóra nefnir að mörg fyrirtæki hafi þegar gengið á undan með góðu fordæmi og skapað sér velvild viðskiptavina með því að bjóða salerni fyrir öll kyn. Ólafur segir afstöðu FA að slíkt eigi að vera viðskiptaleg ákvörðun fyrirtækjanna fremur en að hið opinbera skyldi þau til að ráðast í kostnað við breytingar. „Já og nei. Mér finnst rosalega mikilvægt að við sem stjórnvald og við bara sem samfélag gerum öllum kleift að lifa góðu lífi í samfélaginu okkar. Við verðum einhvern veginn öll að standa vörð um að allir geti farið á salerni án þess að upplifa eitthvert öráreiti,“ segir Dóra Björt. „Ég tel það nú klárlega vera eitthvað sem er eðlilegt að gera kröfu um. Annaðhvort stöndum við með þessum prinsippum sem samfélag eða við gerum það ekki.“

Nýjar fréttir

Innskráning