EES breytti miklu fyrir frumkvöðlafyrirtæki

28.05.2019
Frá málþinginu. Pétur Már og Vigdís Tinna fremst á myndinni.

EES-samningurinn hefur reynst frumkvöðlafyrirtækjum mikilvægur. Vafasamt er að fyrirtæki á borð við Nox Medical eða Marel störfuðu hér á landi eða hefðu þróast í núverandi mynd, nyti hans ekki við. Þetta var á meðal þess sem fram kom á málþingi Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins og utanríkisráðuneytisins um EES-samninginn og starfsumhverfi frumkvöðlafyrirtækja, sem haldið var í gær í húsakynnum Félags atvinnurekenda. Horfa má á upptöku frá málþinginu í spilaranum hér að neðan.

Fleiri íslensk fyrirtæki fá styrki
Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs hjá Rannís, fór yfir þátttöku íslenskra stofnana og fyrirtækja í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði rannsókna og nýsköpunar. Hún greindi frá því að frá árinu 2011 hefðu íslensk fyrirtæki og stofnanir tekið þátt í 211 verkefnum. fyrir vikið hefðu tæplega 92 milljónir evra, eða um 12,5 milljarðar króna, borist til íslensks vísinda- og nýsköpunarsamfélags. Hlutfall samþykktra styrkja væri í ESB um 14-15% af umsóknum, en hjá íslensku fyrirtækjunum hefði hlutfallið verið á bilinu 18-20%. Það hefði því gengið vel. Aðalheiður nefndi dæmi um íslensk fyrirtæki sem hefðu verið virkir þátttakendur í samstarfinu; Matís, HS orka, Carbon Recycling International, Össur, Skaginn, Curio, Nox Medical, Icewind, Genís, Aurora Seafood, GEORG rannsóknaklasi í jarðhita, Strætó, Markmar, Nýorka, Hefring Marine og mörg fleiri.

Starfsemin ekki hér á landi án EES
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, fyrirtækis sem sérhæfir sig í smíði tækja og hugbúnaðar til svefnrannsókna, sagði að fyrirtækið hefði fært á annan tug milljarða inn í þjóðarbúið í formi gjaldeyristekna. Fimm milljónir manna hefðu fengið greiningu svefnvandamála með búnaði fyrirtækisins frá því að það var stofnað. Þá væri mikill samfélagslegur ávinningur af starfseminni, en talið væri að kostnaður af svefnleysi og svefntruflunum á Vesturlöndum gæti numið 1-3% af þjóðarframleiðslu.

Pétur sagði að engum blöðum væri um það að fletta að saga fyrirtækisins hefði orðið allt önnur ef EES-samningsins hefði ekki notið við. „Aðgengi að markaði í Evrópu skiptir sköpum fyrir okkur. Að falla undir evrópskt regluverk er lykilforsenda fyrir því að við getum byggt starfsemi af þessu tagi upp á Íslandi,“ sagði Pétur. Hann benti á að stór hluti sérfræðinga Nox Medical á Íslandi væru frá öðrum EES-ríkjum og fyrirtækið ræki eigin starfsemi í Mannheim í Þýskalandi og Manchester í Englandi. Það hefði ekki getað orðið nema af því að fyrirtækið nýtti kosti fjórfrelsisins sem felst í EES. Þá væri menntunarþáttur Evrópusamstarfsins gríðarlega mikilvægur og samstarf fyrirtækisins við háskóla. Loks skipti frjálst flæði fjármagns miklu máli.

Pétur sagði að spyrja mætti hvernig næstu 25 ár litu út ef EES-samningsins nyti ekki við. „Staðan væri einfaldlega sú að við gætum ekki byggt upp starfsemi Nox Medical hér á landi eins og við höfum gert, ef ekki nyti við samningsins eins og hann er í dag.“

Frummælendur ásamt fundarstjóra. Frá vinstri: Auður Edda, Pétur Már, Vigdís Tinna, Aðalheiður, Karl Birgir og Páll Rúnar.

EES ruddi viðskiptahindrunum úr vegi
Vigdís Tinna Sigurvaldadóttir, skattalögfræðingur hjá Marel, fór yfir hraðan vöxt fyrirtækisins á undanförnum áratugum, en það hefur reglulega tvöfaldað veltu sína með kaupum á öðrum fyrirtækjum. Marel er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu hátæknibúnaðar fyrir matvælavinnslu. Nú starfa 6.000 manns fyrir Marel í 30 löndum og veltan er 1,2 milljarðar evra, eða um 170 milljarðar króna.

Vigdís sagði að EES-samningurinn og aðgangur að innri markaði Evrópusambandsins hefði skipt Marel gríðarlega miklu máli, enda væri heimamarkaðurinn fyrir vörur fyrirtækisins lítill. Samningurinn gerði fyrirtækjum eins og Marel kleift að stunda starfsemi sína óhindrað hvar sem væri á Evrópska efnahagssvæðinu. Með reglum sem bönnuðu mismunun vegna ríkisfangs væri tryggt að stjórnvöld í einstökum ríkjum hnikuðu ekki til samkeppnisaðstæðum til að hygla tilteknum fyrirtækjum á kostnað annarra.

Hún rifjaði upp að fyrir 25 árum hefði Evrópa verið mikilvægasti markaður Marels. „Ef við værum að kaupa inn hráefni frá Evrópu í framleiðsluna með tollum, framleiða vörurnar hérna og flytja vélarnar aftur út til Evrópusambandsins með tollum þá hefði það heft okkur samkeppnislega, því að helstu keppinautar okkar voru evrópskir,“ sagði Vigdís Tinna. EES-samningurinn hefði rutt tæknilegum viðskiptahindrunum í milliríkjaviðskiptum úr vegi og tryggt jafnræði í álagningu fjáröflunargjalda á vörur.

„Þessi frjálsi aðgangur að markaðnum og EES-samningurinn hafði mjög mikið að segja við uppbyggingu Marels. Við gátum selt vörur inn í Evrópusambandið og EES án tolla og annarra viðskiptahindrana. Fyrirtækið hefði þróast í allt annarri mynd ef ekki hefði verið fyrir samninginn.“

Samningurinn auðveldar lífið
Karl Birgir Björnsson, framkvæmdastjóri Hefring Marine, fjallaði um uppbyggingu fyrirtækisins og systurfyrirtækis þess Haf Tech, en bæði fyrirtækin þróa búnað fyrir hraðbáta. Bæði fyrirtækin hefðu farið með framleiðslu sína til landa þar sem markaðurinn er til staðar, eins og Bretlands og Grikklands. Karl sagði að fjórfrelsið sem EES-samningurinn kveður á um hefði verið mjög mikilvægt fyrir fyrirtækin. Frjálsir vöruflutningar þýddu til dæmis frjálsan aðgang að útboðum, án kröfu um að bátarnir væru smíðaðir í viðkomandi landi. Frjálsir fólksflutningar skiptu miklu máli. Fyrirtækið vildi hafa höfuðstöðvarnar á Íslandi, en gæti án hindrana byggt upp teymi í mismunandi löndum EES. Þjónustufrelsi samningsins auðveldaði áætlanagerðir og skipulag og frjálsir fjármagnsflutningar auðvelduðu stofnun dótturfélaga og uppbyggingu tengslanets. Þá gæti fyrirtækið nýtt EES-styrki og þróunarsjóður EFTA styddi verkefni í Grikklandi, þar sem Hefring er með starfsemi.

„Samningurinn er eitthvað sem maður pælir kannski ekki mikið í eða tekur eftir, en hann virðist virka vel fyrir okkur og eykur möguleikana,“ sagði Karl Birgir.

Íslensk-evrópska viðskiptaráðið og utanríkisráðuneytið stóðu að málþinginu.

Frumkvöðlar taki símtal á sendiráðin
Auður Edda Jökulsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins, fjallaði um stuðning utanríkisþjónustunnar við fyrirtæki í markaðssókn á Evrópska efnahagssvæðinu. Sjö af 12 viðskiptafulltrúum utanríkisþjónustunnar starfa í Evrópulöndum og hvatti Auður Edda frumkvöðlafyrirtæki til að taka símtal á sendiráðin eða viðskiptafulltrúana og skoða möguleikana á samstarfi og þjónustusamningum. Hún greindi frá áformum um að efla viðskiptaþjónustuna og efla samstarf við hagsmunaaðila, t.d. Félag atvinnurekenda og þau milliríkjaviðskiptaráð sem félagið rekur.

EES eins og góð nettenging
Páll Rúnar M. Kristjánsson, formaður ÍEV, sem stýrði fundi, dró saman erindi frummælenda og sagði að EES-samningurinn væri eins og rosalega góð nettenging. „Þegar hún bilar fattar maður hvað hún er mikilvæg. Þangað til gengur mjög vel. Það er meðal annars þess vegna sem okkar félagsskapur, Íslensk-evrópska viðskiptaráðið, gerir mjög alvarlegar athugasemdir við það þegar samningnum er ógnað.“

Páll þakkaði utanríkisráðuneytinu samstarfið um skipulagningu málþingsins, en það er liður í samstarfi ráðuneytisins við hagsmunaaðila um að kynna ýmsar hliðar EES-samningsins á 25 ára afmælisári hans.

Glærur Aðalheiðar
Glærur Vigdísar Tinnu

Glærur Karls Birgis
Glærur Auðar Eddu

Nýjar fréttir

Innskráning