EES-klukkan gengur áfram

26.05.2022

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 26. maí 2022.

Noregur, Liechtenstein og Ísland mynda Evrópska efnahagssvæðið ásamt ríkjum ESB.

Utanríkisráðherrann ræddi á fundi EES-ráðsins í vikunni að fyrir dyrum stæðu viðræður um nýtt samningstímabil Uppbyggingarsjóðs EES og áréttaði um leið mikilvægi þess að markaðsaðgangur fyrir íslenzkar sjávarafurðir yrði aukinn og að landbúnaðarsamningur Íslands og ESB yrði endurskoðaður. 

Stjórnvöld virðast vilja ræða þessi þrjú mál í samhengi, sem er ekki óskynsamlegt. Vegna hækkandi hlutfalls laxaafurða í útflutningi sjávarafurða til ESB hefur til dæmis hlutfall útflutningsins sem ber ekki tolla lækkað talsvert. Ekki er óeðlilegt að tengja áframhaldandi greiðslur í uppbyggingarsjóðinn við greiðari markaðsaðgang Íslands í ESB.

Hvað landbúnaðarsamninginn varðar eru hins vegar bæði stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök, sem berjast fyrir að klukkunni verði snúið til baka og dregið úr fríverzlun með búvörur. Þrennt má hafa í huga í því samhengi.

Talað er um að ójafnvægi sé í samningnum. ESB og Ísland sömdu um stækkun á tollkvótum; Ísland fékk 2,3 sinnum stærri tollfrjálsan kvóta inn á ESB-markað en ESB fékk inn á íslenzka markaðinn. ESB-ríkin hafa hins vegar nýtt sinn tollkvóta mun betur, enda er mikil eftirspurn eftir búvörum frá ESB hjá íslenzkum neytendum. Eiga þeir að líða fyrir að íslenzkum búvöruútflytjendum hefur ekki tekizt vel að selja evrópskum neytendum beztu búvörur í heimi?

Í nýrri greinargerð um leiðir til að bæta fæðuöryggi Íslands er bent á að vel virk kerfi alþjóðaviðskipta séu ein undirstaða aðgengis að fæðu og aðföngum til matvælaframleiðslu. Alþjóðlegir samningar þurfi að tryggja hag Íslands. Það væri mjög lítið vit í samningi, sem drægi úr aðgengi íslenzkra neytenda að matvörum á hagstæðu verði.

Loks kveður EES-samningurinn sjálfur skýrt á um að samningsaðilar skuli halda áfram viðleitni sinni til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. EES gerir einfaldlega ekki ráð fyrir að klukkunni sé snúið til baka.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning