EFTA-dómstóllinn: Bann við innflutningi á fersku kjöti og eggjum í andstöðu við EES

14.11.2017

EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg komst í morgun að þeirri niðurstöðu að bann íslenskra stjórnvalda við innflutningi á fersku kjöti, ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk bryti í bága við EES-samninginn. Dómstóllinn felldi dóm í tveimur málum, sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) höfðaði gegn íslenska ríkinu og voru sameinuð í málflutningi fyrir dómstólnum.

Í tilkynningu dómstólsins segir að hann líti svo á að íslensk löggjöf feli í sér bann við innflutningi á hrárri kjötvöru, eggjum og mjólk. Hins vegar mæli löggjöfin fyrir um að innflutningur á slíkum vörum geti verið heimill að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Dómstóllinn taldi að þetta leyfisveitingakerfi fæli í sér eftirlit með dýraheilbrigði í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins um dýraheilbrigðiseftirlit í viðkiptum innan bandalagsins, en hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Það væri óumdeilt að leyfisveitingakerfið gilti um allar vörusendingar umræddra vara sem kæmu til landsins. Dómstóllinn komst því að þeirri niðurstöðu að leyfisveitingakerfið væri ósamrýmanlegt 5. gr. tilskipunarinnar. Dómstóllinn taldi að samkvæmt málatilbúnaði íslenska ríkisins væri ljóst að á Íslandi væri framkvæmdin sú að innflytjendur meðhöndlaðra eggja og mjólkurvara væru krafðir um gögn þess efnis að umræddar vörur hefðu verið meðhöndlaðar (gerilsneyddar) í samræmi við íslenska löggjöf. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að slík framkvæmd fæli í sér eftirlit með dýraheilbrigði umfram það sem leyfilegt væri samkvæmt 5. gr. tilskipunarinnar.

Niðurstaða EFTA-dómstólsins er í fullu samræmi við málflutning Félags atvinnurekenda, sem hefur talið að bannið við innflutningi á fersku kjöti, ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk bryti í bága við EES-samninginn. Bæði EFTA-dómstóllinn og Héraðsdómur Reykjavíkur hafa í talið bannið við innflutningi á fersku kjöti fela í sér ólögmætar viðskiptahindranir. Sama heilbrigðislöggjöf sé í gildi í öðrum ríkjum EES og á Íslandi og ekki annað eftirlit heimilt með innflutningi ferskvöru en stikkprufur.

Innflutningur hefur ekki neikvæð áhrif á heilsu
FA birti síðastliðið sumar skýrslu, unna af sérfræðingum á sviði dýraheilbrigðis og smitsjúkdóma, þar sem fram kemur að ekki séu haldbær rök fyrir því að innflutningur á ferskum eggjum, vörum úr ógerilsneyddri mjólk og fersku kjöti muni hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra. Ekki virðist heldur hægt að fullyrða að innflutningur á þessum vörum muni hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería. Aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum. Skýrsluhöfundar benda á að til að hindra t.d. kamfýlóbakter- og salmonellusmit í fuglakjöti sé hægt að beita kerfi svokallaðra viðbótartrygginga, sem er við lýði í hinum norrænu ríkjunum og er mun minna íþyngjandi en það fortakslausa innflutningsbann gagnvart ferskvöru, sem nú er í gildi á Íslandi.

Vísvitandi brotum á EES verði hætt
„Þessi niðurstaða EFTA-dómstólsins hefur verið fyrirséð lengi og kemur ekki á óvart. Þegar Alþingi ákvað á sínum tíma að viðhalda innflutningsbanni gagnvart ferskum búvörum var það að brjóta EES-samninginn vísvitandi,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Nú getur íslenska ríkið ekki lengur dregið lappirnar í þessu máli. Það þarf einfaldlega að afnema innflutningsbannið og leyfa innflutning á fersku kjöti, eggjum og mjólkurvörum úr ógerilsneyddri mjólk. Það er sjálfsagt að Ísland beiti sömu varúðarráðstöfunum til að hindra salmonellu- og kamfýlóbaktersmit og hin norrænu ríkin gera. Til þess að það megi verða, þarf að vinna undirbúningsvinnu sem íslensk stjórnvöld hefðu átt að vera byrjuð á fyrir löngu og er ámælisvert að hefur ekki verið gert, í ljósi þess að lengi hefur legið fyrir hvernig niðurstaðan yrði í þessum dómsmálum. Það hlýtur að verða eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar að gera gangskör að því að Ísland uppfylli samningsskuldbindingar sínar í þessum efnum.“

Ólafur Stephensen og Erna Bjarnadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, ræða málið á Rás 2

Viðtal við Ólaf Stephensen á Markaðstorginu á Hringbraut

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning