Tíu vikum eftir að sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts var kunngjörð, hefur eftirlitsnefndin, sem á að fylgjast með því að ríkisfyrirtækið fari að skilmálum sáttarinnar, enn ekki verið skipuð. Félag atvinnurekenda hvetur til þess að bætt verði úr því hið fyrsta.
Samkvæmt ákvæðum sáttarinnar, sem var birt 17. febrúar, hefur eftirlitsnefndin það hlutverk að fylgja sáttinni eftir, taka við kvörtunum og taka ákvarðanir í samræmi við fyrirmæli sáttarinnar. Nefndin verður skipuð af Íslandspósti, en tilnefningu nefndarmanna skal bera undir Samkeppniseftirlitið til samþykktar eða synjunar. Tveir af þremur nefndarmönnum skulu vera óháðir Íslandspósti. Samkvæmt upplýsingum sem FA hefur fengið frá Samkeppniseftirlitinu hefur stofnunin nú tilnefningar Íslandspósts til skoðunar.
„Það er að sjálfsögðu mikilvægt að vanda til verka við skipun eftirlitsnefndarinnar, en líka mikilvægt að hún taki sem fyrst til starfa,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Ýmislegt bendir til að á þeim mánuðum sem eru liðnir frá því að sáttin var kunngjörð hafi ríkisfyrirtækið síst dregið af sér í framgöngu sinni gagnvart keppinautum með því að undirbjóða viðskipti og bregða fæti fyrir keppinauta með því að rýra viðskiptakjör þeirra. Nefndin mun því hafa nóg að gera um leið og hún hefur verið skipuð.“
Félag atvinnurekenda hefur um árabil gagnrýnt harðlega framferði Íslandspósts í samkeppni við einkafyrirtæki. Fyrirtækið hefur fært mjög út kvíarnar í skyldum og óskyldum rekstri og gengið fram af hörku í samkeppninni. Sterkar vísbendingar eru um að samkeppnisrekstur hafi verið niðurgreiddur með tekjum af einkaréttarstarfseminni. Þá hefur upplýsingagjöf Íslandspósts ekki verið í samræmi við lög og reglur, þannig að ekki hefur verið hægt að sannreyna að fyrirtækið fari að ákvæðum póstlaga og samkeppnislaga um aðskilnað rekstrarþátta.
Rannsókn Samkeppniseftirlitins, sem endaði með sáttinni, stóð frá 2008 til 2017. Sáttameðferðin stóð þar af í tæp fjögur ár. Á þessum langa tíma hafa keppinautar ríkisfyrirtækisins orðið fyrir margvíslegu tjóni, sem ekki hefur verið bætt. FA hefur velt því upp hversu langan tíma það muni taka að taka á mögulegum brotum Íslandspósts á sáttinni.