Eftirlitsnefnd: „Sterkar vísbendingar“ um að Íslandspóstur hafi brotið samkeppnissátt

04.03.2019

Eftirlitsnefnd um framkvæmd sáttar Íslandspósts ohf. og Samkeppniseftirlitsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að „sterkar vísbendingar“ séu um að Íslandspóstur hafi brotið gegn sáttinni með því að reikna ekki vexti á lán til dótturfélagsins ePósts. Félag atvinnurekenda kvartaði undan þessu broti á sáttinni til eftirlitsnefndarinnar í október síðastliðnum. Nefndin hefur enn ekki skilað niðurstöðu vegna annarrar kvörtunar FA vegna ePósts, en hún sneri að því að rekstur félagsins hefði verið sameinaður móðurfélaginu án heimildar Samkeppniseftirlitsins.

Í sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts frá því í febrúar 2017 eru skýr ákvæði um að reikna beri markaðsvexti á lán Póstsins til dótturfélaga. Í niðurstöðu nefndarinnar segir: „Nefndin telur sterkar vísbendingar um að ÍP hafi brotið gegn ákvæðum 3. mgr. greinar 9.2 í sátt ÍP og Samkeppniseftirlitsins með því að veita ePósti lán án þess að samið væri um eða höfð uppi krafa um greiðslu vaxta af lánsfjárhæðinni eftir að sáttin var gerð.“ Í umfjöllun nefndarinnar um mótbárur Íslandspósts við kvörtun FA segir að sáttin sé skýr um þessi atriði og ekki verði séð að Íslandspóstur njóti neinnar heimildar til að víkja frá þeim ákvæðum, jafnvel þótt fyrirhugað sé að sameina viðkomandi dótturfélag móðurfélaginu eða leggja starfsemina niður.

Vaxtalaus lán eru ekki í boði
Þá segir í umfjöllun nefndarinnar að enginn vafi leiki á að „viðskiptastaða“ ePósts við Íslandspóst sé í reynd lán. Ekki fari heldur á milli mála að fyrirtækjum standi almennt ekki vaxtalaus lán til boða.

Fram kemur að það veki athygli nefndarinnar að í andsvörum Íslandspósts hafi komið fram að 29. janúar síðastliðinn hafi Íslandspóstur látið færa vaxtaútreikning á 283,8 milljóna króna skuld ePósts við móðurfélagið í bækur félaganna. Vextirnir séu miðaðir við 1. janúar 2018 og nemi 34,1 milljón króna.

Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að hún muni upplýsa Samkeppniseftirlitið um kvörtunina og niðurstöðu sína.

Enn ein tilraun til að fela tapið
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þessi niðurstaða hafi alla tíð legið í augum uppi. „Raunar er athyglisvert að eftirlitsnefnd, sem á að framfylgja ákvæðum sáttarinnar, taki ekki sterkar til orða en svo að tala um „sterkar vísbendingar“, því að brotin eru svo augljós,“ segir Ólafur.

Hann segir ámælisvert að nú, þegar Íslandspóstur fáist loks til að byrja að reikna vexti á lánið, sé það miðað við ársbyrjun 2018. „Með réttu ætti að reikna vexti frá því að skuldin varð til árið 2012 og þeir væru þá nær 200 milljónum króna. Þetta er enn ein tilraun stjórnenda Íslandspósts til að fela hversu gríðarlegum fjármunum þeir hafa tapað á ævintýrum í samkeppnisrekstri, en starfsemi ePósts hefur engu skilað.“

Ólafur segist gera eindregið ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið taki fast á brotum Íslandspósts gegn sáttinni.

Niðurstaða nefndarinnar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning