Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent Íslandi formlegt áminningarbréf vegna rangrar tollflokkunar á pitsuosti með íblandaðri jurtaolíu, sem stofnunin segir vera brot á ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjálst flæði vöru. ESA tók málið upp við íslensk stjórnvöld í framhaldi af kvörtun frá Félagi atvinnurekenda á síðasta ári. Í ákvörðun ESA kemur fram að ostur með íblandaðri jurtaolíu, sem inniheldur allt að 15% af mjólkurfitu, falli undir vörusvið EES-samningsins, nánar bókun 3 við samninginn. Þar með eigi osturinn ekki að bera tolla, samkvæmt ákvæðum samningsins.
„Þessi niðurstaða ESA kemur ekki á óvart og var fullkomlega fyrirsjáanleg,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum í landbúnaði frestaði fjármálaráðherra því fyrr í vetur að leggja fram frumvarp um að breyta tollflokkuninni til fyrra horfs. Nú eiga stjórnvöld ekki aðra kosti en að fara að tilmælum ESA, eða hætta á að fá á sig enn einn dóm EFTA-dómstólsins vegna brota á EES-samningnum. Fyrir dyrum stendur það verkefni að lágmarka kostnað íslensku þjóðarinnar af mögulegu alþjóðlegu tollastríði. Þá er ekki gott veganesti að verða uppvís að því á alþjóðavettvangi að svindla vísvitandi á alþjóðlegum fríverslunarsamningum. Ísland á að vera ábyrgt ríki, sem hlítir reglum um alþjóðlega fríverslun og er til fyrirmyndar.“
Tollflokkuninni breytt árið 2020
Skatturinn breytti tollflokkun á pitsuosti með íblandaðri jurtaolíu árið 2020, vegna þrýstings frá fjármálaráðuneytinu, Bændasamtökum Íslands og Mjólkursamsölunni. Forsaga málsins er í stuttu máli sú að félagsmaður FA flutti inn pitsuost með íblandaðri jurtaolíu og var hann samkvæmt ráðleggingum starfsmanna tollstjóra hjá Skattinum flokkaður í 21. kafla tollskrárinnar, sem ber ekki tolla. MS og Bændasamtökin þrýstu á stjórnvöld að flokka vöruna í 4. kafla tollskrárinnar, sem ber háa tolla. Látið var undan þeim þrýstingi og bar yfirtollvörður fyrir dómi í máli fyrirtækisins gegn ríkinu að fjármálaráðuneytið hefði gert embættinu að „fremja ólög“. Heil deild hjá Skattinum sagði sig frá málinu í framhaldinu en tollflokkuninni var engu að síður breytt.
Íslandi ber að fara eftir ákvörðun Alþjóðatollastofnunarinnar
Osturinn var fluttur inn frá Belgíu. Tollflokkun íslenskra stjórnvalda var í andstöðu við afstöðu belgískra tollayfirvalda, formlega afstöðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og túlkun Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO). Evrópusambandið lét á málið reyna hjá WCO og komst tollflokkunarfundur stofnunarinnar að þeirri niðurstöðu í mars 2023 að varan ætti að flokkast í 21. kafla tollskrárinnar. Íslensk stjórnvöld hafa neitað að fara eftir þeirri niðurstöðu og m.a. borið fyrir sig dóma Héraðsdóms og Landsréttar í máli Danóls gegn íslenska ríkinu, eins og vikið er að í ákvörðun ESA.
Stofnunin er engu að síður á þeirri skoðun að Íslandi beri að fara eftir tollflokkun WCO. ESA segir vöruna, sem félagsmaður FA flutti inn, falla undir vörusvið EES-samningsins en þýðing bókunar 3 sé víðtækari og aðrar sambærilegar ostablöndur, sem uppfylli skilyrði bókunar 3 um að innihalda minna en 15% af mjólkurfitu, falli einnig þar undir. ESA segir að áhrif hinnar röngu tollflokkunar árið 2020 séu að tollar séu nú lagðir á vörurnar, sem nema 30% auk 795 króna á hvert kíló.
Ísland stendur ekki við skuldbindingar sínar
„Þetta þýðir að íslenska ríkisstjórnin leggur tolla á vörur, sem falla undir vörusvið EES-samningsins en þær ættu ekki að bera slíka tolla,“ segir í ákvörðun ESA. Stofnunin dregur af því þá ályktun að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum.