Áfengisinnflytjendur verða fyrir milljónatjóni vegna þess að tollstjóraembættið finnur ekki mannskap til að hafa eftirlit með förgun áfengis sem er gallað, útrunnið eða af öðrum ástæðum ekki söluhæft. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda vekur athygli á þessu í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.
Innflytjendur greiða áfengisgjald í ríkissjóð við tollafgreiðslu áfengis. Samkvæmt 6. grein laga um gjald af áfengi og tóbaki geta innflytjendur fengið gjaldið endurgreitt af áfengi sem er fargað undir eftirliti tollstjóra. Ástæður förgunar áfengis geta til dæmis verið að umbúðirnar hafa orðið fyrir tjóni, áfengið er útrunnið eða óseljanlegt af öðrum ástæðum.
Ólafur Stephensen segir frá því í frétt Viðskiptablaðsins að það hafi reynst erfiðleikum bundið að fá fulltrúa tollstjóra til að vera viðstaddur þegar áfengi er fargað. „Það hefur reynst þrautin þyngri að fá slíkan fulltrúa og hefur embættið borið við manneklu. Því er töluvert magn af ónýtu áfengi sem bíður förgunar og á meðan fæst gjaldið ekki endurgreitt,“ segir Ólafur. Dæmi eru um að áfengisgjaldið sem framleiðendur eiga inni hjá ríkinu vegna þessa seinagangs tollstjóra hlaupi á milljónum fyrir einstök fyrirtæki.
Ofan á áfengisgjald, sem fæst ekki endurgreitt úr ríkissjóði vegna seinagangs tollsins bætist svo kostnaður innflytjandans við að geyma áfengi sem hann getur ekki selt. Sá kostnaður getur hlaupið á milljónum. „Ég þekki dæmi þess að fyrirtæki hafi beðið í fjögur ár eftir að geta fargað áfengi. Þetta er ótækt,“ segir Ólafur Stephensen í Viðskiptablaðinu.