Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 6. september 2023
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SE) í máli Samskipa er dapurlegur vitnisburður um virðingarleysi stórra fyrirtækja fyrir samkeppnislögum, sem eiga að tryggja hag jafnt fyrirtækja og neytenda. Ekki fer á milli mála af lestri málavaxta að stóru skipafélögin, Eimskip og Samskip, ollu fjölda fyrirtækja verulegu tjóni með því að halda uppi verði á skipaflutningum. Háttsemin sem er lýst í ákvörðuninni skaðaði þannig íslenzkt viðskiptalíf og samfélag, langt út fyrir flutningageirann. Á Íslandi er flutningskostnaður drjúgur þáttur í vöruverði og á því tímabili, sem ákvörðun SE fjallar um, áttu samkeppnisbrotin klárlega sinn þátt í að hækka verð á nauðsynjum.
Stundum er fjallað um samkeppnismál eins og það séu vesalings fyrirtækin, sem eru til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu, sem séu þolendurnir í þeim. Þannig líta talsmenn Samskipa augljóslega á málið miðað við málflutning þeirra síðustu daga – jafnvel þótt Eimskip sé búið að viðurkenna brotin. Það þarf hins vegar ekki að lesa langt í ákvörðun SE til að átta sig á að í málinu er stór hópur þolenda lögbrota – fyrirtækin sem neyddust til að greiða miklu hærra verð en eðlilegt var fyrir flutninga. Að sjálfsögðu skoða þau stöðu sína og meta með aðstoð lögmanna hvort þau geti höfðað mál á hendur skipafélögunum til að fá tjón sitt bætt.
Hjá þessum fyrirtækjum er allt traust á skipafélögunum horfið – og síðarnefndu félögin aðhafast enn sem komið er ekki mikið til að reyna að endurheimta það. Orðið „viðskiptavinur“ er ekki rétta orðið til að lýsa því hvernig skipafélögin litu á fyrirtækin sem voru í viðskiptum hjá þeim. Gögnin sem dregin eru fram í skýrslu Samkeppniseftirlitsins koma nefnilega ekki heim og saman við það hvernig fólk umgengst vini sína. Heiðarleiki og traust er yfirleitt undirstaða góðs viðskiptasambands, ekki síður en góðrar vináttu. Enn bendir ekkert til að skipafélögin átti sig á að þau þurfa að vingast við viðskiptamenn sína upp á nýtt.
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir og fjallar um brot sem áttu sér stað á árunum 2008-2013. Framhald málsins skiptir hins vegar líka miklu. Þótt mögulega sé ekki lengur beint samráð í gangi á milli stóru skipafélaganna, gæti samkeppni á sjóflutningamarkaðnum verið miklu virkari. Félag atvinnurekenda sendi SE erindi í síðasta mánuði í framhaldi af margvíslegum ábendingum frá félagsmönnum, sem eru langþreyttir á háum og síhækkandi flutningskostnaði og ógegnsæjum verðskrám skipafélaganna. Fyrirtæki í FA segja sögur af mismunun sem felst t.d. í því að erlendir birgjar fá betri tilboð en íslenzk innflutningsfyrirtæki í nákvæmlega sömu flutninga. Í erindinu benti FA jafnframt á að í stærstu flutningahöfn landsins eru það aðilar samráðsmálsins, Eimskip og Samskip, sem eiga löndunarbúnaðinn. Ný fyrirtæki, sem vilja hasla sér völl í flutningum, þurfa því að semja við keppinauta sína um aðgang. Þetta er augljóslega staða sem er ekki góð fyrir samkeppnina, ekki fyrir Faxaflóahafnir og sízt af öllu fyrir neytendur í landinu.
Þess vegna er mikilvægt að Samkeppniseftirlitið birti álit í lok síðustu viku um leiðir, sem hægt er að fara í framhaldinu til að efla samkeppni á flutningamarkaði. Þar er tekið undir ýmis sjónarmið sem FA setti fram og þannig mælzt til þess að stjórnvöld og hlutaðeigandi opinberir aðilar tryggi aðgengi nýrra og minni keppinauta í sjóflutningum að fullnægjandi hafnaraðstöðu og skipaafgreiðslu. Miklu máli skiptir að hin huggulega sambúð skipafélaganna í Sundahöfn verði brotin upp og nýjum aðilum hleypt að borðinu, þó ekki væri nema til þess að fyrirtæki neyðist ekki til að skipta við þá sem hafa misnotað traust þeirra jafngróflega.
Stjórnvöld brugðust lítt við sambærilegum ábendingum Samkeppniseftirlitsins í kjölfar bankahrunsins. Ef lýsingarnar í skýrslu SE og niðurstöður eftirlitsins duga ekki til að ýta við þeim aðilum sem álitinu er beint að, eru þeir ekki starfi sínu vaxnir.