Einboðið útboð

03.12.2015

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 3. desember 2015.

IMG_5839Lögum samkvæmt ber ríkinu og stofnunum þess að bjóða út innkaup yfir ákveðnum fjárhæðum. Nýleg könnun meirihluta fjárlaganefndar Alþingis leiddi hins vegar í ljós að minnihluti innkaupa stofnana ríkisins er boðinn út.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, sagði í Morgunblaðinu „fullkomlega augljóst að það eru engar afsakanir því að ef þú ert með of margar stofnanir þá ættu þær eða viðkomandi ráðuneyti að hafa frumkvæði að því að þær bjóði út saman.“ Þetta liggur býsna beint við.

Fjármálaráðuneytið hefur það hlutverk að passa buddu skattgreiðenda. Þess vegna er alveg stórmerkilegt að í einum flokki innkaupa, á flugmiðum fyrir ríkisstarfsmenn, hafi ráðuneytið haldið því fram í málarekstri fyrir kærunefnd útboðsmála að flugmiðakaup hverrar stofnunar séu undir viðmiðunarmörkum og viðskiptin því ekki útboðsskyld. Ríkið hefur með öðrum orðum viljað forðast það eins og heitan eldinn að nýta kaupendastyrk sinn í viðskiptum við flugfélög.

Kærunefndin hefur ekki fallizt á þessi rök heldur skikkað ríkið til að bjóða út flugfarmiðaviðskipti sín. Ráðuneytið hefur nú farið á svig við lögin um opinber innkaup í meira en þrjú ár, eða frá því í ágúst 2012, þegar rammasamningi um flugferðir ríkisstarfsmanna var sagt upp og boðað að farið yrði í nýtt útboð.

Í marz boðaði fjármálaráðuneytið að viðskiptin yrðu boðin út á fyrri hluta ársins. Þegar hann var liðinn spurði Félag atvinnurekenda Ríkiskaup hvað liði útboðinu. Svarið var að það færi fram á haustmánuðum. Nú þegar haustið er liðið hefur FA spurt aftur – og Ríkiskaup vísað á ráðuneytið sem „eiganda verkefnisins.“ FA hefur spurt ráðuneytið en enn ekki fengið svar.

Það er þó alveg einboðið hvert svarið hlýtur að verða. Samkeppni í millilandaflugi fer vaxandi. Með útboði er hægt að spara mikla peninga fyrir skattgreiðendur. Um leið keppa flugfélögin um viðskipti ríkisins á jafnréttisgrundvelli. Þeir einu sem tapa á því að útboð fari fram sem fyrst eru ríkisstarfsmenn, sem fá í dag vildarpunkta til eigin nota þegar þeir fljúga með flugfélaginu sem ríkið skiptir yfirleitt við.

 

Nýjar fréttir

Innskráning