Einokunin hækkar um 62,5% á fimm árum – samkeppnin ekki neitt

01.02.2017

Verðskrá Íslandspósts fyrir bréf, sem fyrirtækið hefur einkarétt á að dreifa, hækkaði enn og aftur í síðustu viku, að þessu sinni um 11%. Þetta er sjöunda hækkunin á einkaréttarþjónustu fyrirtækisins á tæpum fimm árum og hefur sú þjónusta hækkað um 62,5% frá því í júlí 2012. Á sama tíma hefur gjaldskrá fyrir dreifingu fjölpósts, þar sem Íslandspóstur á í samkeppni, ekki hækkað um krónu.

bref vs fjolpostur

Póstburðargjald fyrir bréf í einkarétti í svokölluðum A-pósti er nú 195 krónur, en var 120 krónur eftir 1. júlí 2012. Hækkunin nemur 62,5%. Á sama tíma hefur svokallaður B-póstur, sem er dreift sjaldnar, hækkað úr 103 krónum í 180, sem er 74,8% hækkun.

Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar, sem heimilaði Íslandspósti að hækka verðskrána í einkarétti, kemur fram að hækkunin sé annars vegar vegna fækkunar bréfa og hins vegar vegna mikilla launahækkana. Í síðustu ákvörðun um hækkun á einokunarstarfsemi Póstsins var einnig vísað til launahækkana. Í því ljósi er í meira lagi athyglisvert að verðskrár ríkisfyrirtækisins fyrir þjónustu sem er í samkeppni skuli hækka lítið eða ekkert, því að launakostnaður er gríðarlega stór kostnaðarliður í póstdreifingu. Dreifikerfið fyrir bréfapóst og fjölpóst er það sama og kostnaðarliðirnir sömuleiðis. Á sama tíma og ríkisfyrirtækið telur sig ekki þurfa að hækka þjónustu á borð við dreifingu fjölpósts neyðast keppinautar fyrirtækisins til að hækka gjaldskrá sína vegna mikilla launahækkana samkvæmt kjarasamningum.

Félag atvinnurekenda hefur upplýsingar um að Íslandspóstur hafi þar að auki á undanförnum árum veitt stórum viðskiptavinum mjög ríflegan afslátt frá verðskrá sinni fyrir fjölpóst, oft á bilinu 60-70% og allt upp í 75%. Keppinautar fyrirtækisins, sem þurfa á þjónustu þess að halda vegna dreifingar um allt land, fá ekki sambærilegan afslátt.

„Þetta ber allt að sama brunni; sú mynd er dregin sífellt skýrari dráttum að Íslandspóstur sækir stöðugt hækkanir á einkaréttarþjónustu sinni til yfirvalda og notar tekjurnar til að niðurgreiða samkeppnisrekstur sinn. Það er ákaflega mikið vafamál, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að viðskiptahættir fyrirtækisins standist samkeppnislög og lög um póstþjónustu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

„Póst- og fjarskiptastofnun hefur engan veginn staðið sig í að halda ríkisfyrirtækinu við efnið. Þá hefur fjöldi kæra á hendur Íslandspósti til Samkeppniseftirlitsins verið til meðferðar árum saman án niðurstöðu. Samkeppnisyfirvöld hófu frumkvæðisrannsókn á viðskiptaháttum fyrirtækisins árið 2008 og hafa átt í svokölluðum viðræðum við fyrirtækið um sátt í málum þess frá árinu 2013 án þess að nokkuð bóli á árangri. Þessi dráttur á niðurstöðu í málunum er óþolandi fyrir keppinauta Íslandspósts. Á meðan færir ríkisfyrirtækið stöðugt út kvíarnar í skyldum og óskyldum rekstri.“

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning