Heilbrigðisráðuneytið hefur fallist á að eins metra nálægðarregla verði látin gilda í einkareknum fræðslufyrirtækjum sem eru félagsmenn í Félagi atvinnurekenda, rétt eins og í framhalds- og háskólum. Erindi, sem FA sendi menntamálaráðuneytinu 20. ágúst síðastliðinn, var vísað til heilbrigðisráðuneytisins til úrlausnar. Innan raða FA eru fyrirtæki sem starfrækja margvíslega fræðslu og þjálfun í námskeiðsformi.
FA hefur undanfarnar tvær vikur leitast við að fá á hreint hjá stjórnvöldum hvort sömu reglur gildi gagnvart einkareknum fræðslufyrirtækjum og framhalds- og háskólum, eftir að eins metra reglan var tekin upp fyrir þær stofnanir. „FA vill ítreka að sú starfsemi, sem félagsmenn þess hafa með höndum, er á flesta lund sambærileg við starf í framhalds- og háskólum. Það getur ekki skipt máli, þegar sóttvarnaráðstafanir eru útfærðar, hvort viðkomandi starfsemi er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneyti eða ekki eða hvort hún hefur viðurkenningu frá Menntamálastofnun eða ekki. Sambærilegar reglur eru ekki sízt mikilvægar vegna þeirra jafnræðissjónarmiða er snúa að samkeppnisstöðu einkarekinna fræðslufyrirtækja gagnvart endurmenntunardeildum háskólanna,“ sagði í erindi FA til menntamálaráðuneytisins.
Í niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins segir að við afgreiðslu á erindinu hafi ráðuneytið óskað eftir umsögn sóttvarnasviðs embættis landlæknis, sem barst ráðuneytinu í gær. Í umsögn sóttvarnarsviðsins komi fram að það telji að unnt sé að fella starfsemi Félags atvinnurekenda, þ.e. þau fræðslufyrirtæki sem erindið tekur til, undir auglýsingu nr. 811/2020 um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, svo fremi sem aðrar sóttvarnaráðstafanir verði innleiddar. Í auglýsingunni er kveðið á um eins metra regluna í starfi framhalds- og háskóla.
Ráðuneytið setur það sem skilyrði fyrir því að fræðslufyrirtækin verði felld undir auglýsingu nr. 811/2020 að leiðbeiningum sóttvarnalæknis um sóttvarnir í framhaldsskólum sé fylgt.