Ekki eftir neinu að bíða að leyfa innflutning á fersku kjöti

01.02.2016

IMG_3472Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, um að bann íslenskra stjórnvalda við innflutningi á fersku kjöti frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins standist ekki EES-samninginn, var birt í dag. Samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins kveður EES-samningurinn á um að aðildarríkjunum beri að leyfa innflutning á fersku kjöti sem staðist hefur heilbrigðiseftirlit í upprunalandinu og óheimilt sé að gera kröfu um að kjötið hafi verið geymt í frysti í mánuð, eins og íslensk stjórnvöld hafa gert.

Félag atvinnurekenda fagnar þessari niðurstöðu EFTA-dómstólsins. „Dómurinn gat ekki komist að neinni annarri niðurstöðu. Það hefur legið fyrir um árabil að þessar reglur væru hluti af EES-samningnum og að Ísland hefði ekki samið um neina undanþágu frá þeim. Þegar Alþingi hafnaði því að afnema bannið við innflutningi á fersku kjöti var það klárt ásetningsbrot á EES-samningnum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Ólafur bendir á að það séu hagsmunir íslensks matvælaiðnaðar að fá að flytja ferskvöru á markað í öðrum Evrópuríkjum og þá gangi ekki að ætla að hindra innflutning sambærilegrar vöru hér á landi. „Það er fráleitt að á sama tíma og til dæmis sauðfjárbændur hyggjast nýta sér þau tækifæri sem felast í útflutningi á fersku lambakjöti skuli íslensk stjórnvöld ætla að standa í vegi fyrir innflutningi á sambærilegri vöru hér á landi, sem hefur staðist heilbrigðiseftirlit samkvæmt sömu reglum og gilda á Íslandi. Innflutningur á fersku kjöti eykur úrval af ferskri gæðavöru og er neytendum til hagsbóta. Það er ekki eftir neinu að bíða með að afnema þetta bann,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning