Ekki hrifinn af tollmúrum

06.05.2020
Bjarni fundaði með félagsmönnum FA í gegnum fjarfundaforritið Zoom.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var gestur á fjarfundi með félagsmönnum Félags atvinnurekenda í morgun. Bjarni fór þar yfir efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bregðast við heimsfaraldri COVID-19 veirunnar og svaraði fyrirspurnum félagsmanna.

Bjarni sagði í byrjun að ótrúlegt væri að horfa til baka á undanfarna tvo mánuði, þeir virtust nánast eins og tvö ár enda hafa gífurleg áföll riðið yfir íslenskt samfélag og efnahagslíf á þessum tíma. Hann sagðist á heildina litið nokkuð ánægður með hvernig stjórnvöldum hefði tekist að stíga ölduna eftir því sem gefið hefði á bátinn hverju sinni. „Tilgangurinn með aðgerðunum er að bjarga störfum og draga úr dýpt efnahagslægðarinnar. Við trúum því að ef hún verði of djúp og við látum það bara gerast og trúum á að markaðsöflin muni bara einhvern veginn leysa þetta allt saman, munum við hafa kostnað af því í framhaldinu. Það sé mikilvægt að reyna að stýra þessari atburðarás þótt það sé ekki hægt að lina þjáningar allra. Það munu verða gjaldþrot eins og við höfum þegar séð og margir munu missa vinnuna, en við teljum að við höfum dregið úr neikvæðum áhrifum með þessum aðgerðum,“ sagði Bjarni.

Ekki varpa öllu í fang ríkisins
Ráðherra fjallaði um þá gagnrýni á boðaðan stuðning við launagreiðslur á uppsagnarfresti að verið væri að hvetja fyrirtæki til að segja upp fólki. „Mér finnst algjör veruleikafirring að nálgast hlutina með þessum hætti. Í mínum huga erum við að bjarga störfunum sem eftir verða og auka möguleika fyrirtækjanna á að ráða aftur til sín fólk þegar þessi faraldur er yfirstaðinn,“ sagði Bjarni. „Það  er þá nærtækast að spyrja hvaða valkosti þeir sjái fyrir sér, sem hugsa hlutina svona. Ég hafði ekki séð fyrir mér að við ættum að taka þátt í að halda fólki á launaskrá ríkisins, ef ég má orða það þannig, í gegnum hlutastarfaleiðina út árið eða eitthvað þvíumlíkt. Það verður auðvitað að framkalla réttu hvatana til að bregðast við og hjálpa fyrirtækjunum að gera nauðsynlegar ráðstafanir, en ekki varpa þessu öllu saman í fangið á ríkinu.“

Bjarni sagði að erfiðar pólitískar ákvarðanir væru framundan um hvernig ætti að ná halla ríkissjóðs niður á nýjan leik. Hann rifjaði m.a. upp efnahagsáætlunina sem gerð var eftir fjármálahrunið 2008 og að þá hefði tryggingagjald á fyrirtæki verið hækkað verulega vegna aukins atvinnuleysis. Nú stefndi í mun meira atvinnuleysi en eftir hrun en hann heyrði nú eingöngu kröfur um að tryggingagjaldið yrði fellt niður eða lækkað. Hann rifjaði upp að á þessum tíma hefði ríkið dregið mjög úr framkvæmdum, en nú væri stefnan sú að auka framkvæmdir. Gerð áætlunarinnar væri risavaxið pólitískt úrlausnarefni. Að óbreyttu hefði Ísland ekki efni á þeirri opinberu þjónustu, sem haldið væri úti. Annaðhvort yrði að draga úr þjónustu, sem engin sátt væri um, eða ná efnahagslífinu aftur á strik þannig að ríkið fengi tekjur til að halda þjónustunni úti.

Skattaívilnanir vegna öryggisbirgða?
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness og formaður FA, spurði Bjarna út í stuðning við matvælainnflutningsfyrirtæki, sem urðu við tilmælum stjórnvalda um að auka birgðir af ýmsum matvörum í byrjun faraldursins og hafa þar með tekið á sig verulega fjárbindingu og birgðakostnað. Bjarni svaraði því til að ástæða væri til að hafa vökult auga á þessari stöðu. „Mér finnst sjálfsagt að segja hér að ef við getum fengið gögn eða upplýsingar um að það sé bein afleiðing af öryggisráðstöfunum sem fyrirtæki telja sig hafa verið að taka þátt í með stjórnvöldum, að þau hafi orðið fyrir miklum kostnaði vegna þess, þá finnst mér sjálfsagt að skoða hvernig við getum tekist á við það. Mín fyrsta hugsun í því er að við getum verið með einhverjar ívilnandi skattareglur til að mæta því,“ sagði Bjarni.

Til lítils að drepa veiruna niður ef landið er áfram lokað
Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Bako-Ísberg, spurði út í aðgerðir í þágu fyrirtækja sem ekki uppfylltu skilyrði um 75% tekjusamdrátt fyrir stuðningi við launagreiðslur á uppsagnarfresti. Mörg fyrirtæki hefðu orðið fyrir 50-60% samdrætti og myndu neyðast til að fara í uppsagnir í haust þegar hlutastarfaleiðin rennur sitt skeið. Bjarni tók undir að fyrirtæki sem væru á jaðri markanna yrðu fyrir miklum áhrifum. Spurningin væri hvernig fyrirtækjum í þessari stöðu gengi og hvað þau hefðu endurheimt þegar tækist að koma innlendri eftirspurn aftur af stað. Bjarni benti á að fjármálakerfið hefði ríkum skyldum að gegna í slíkum tilvikum. Lánaúrræði með ríkisábyrgð ætti að tryggja lægstu mögulegu vexti og þannig gætu aðgerðir ríkisins með hlutastarfaleiðinni og lánastofnana brúað bil upp á allt að sex mánuði. „Það er stærsta óleysta verkefni okkar í dag; hvernig ætlum við aftur að opna Ísland og koma innlendri eftirspurn af stað? Hvernig ætlum við að nýta þann árangur sem við höfum náð í að drepa veiruna niður? Það hefði verið til lítils ef við verðum að halda landinu áfram lokuðu.“

Ekki hrifinn af að hækka tolla
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA spurði út í erindi sem félagið hefur sent á fjármála- og dómsmálaráðuneyti vegna þeirra áhyggna sem heildsalar hafa af mögulegri gjaldþrotahrinu, ekki sízt í veitinga- og ferðageiranum. Annars vegar hefur félagið lagt til að sömu reglur gildi um endurgreiðslu áfengisgjalds af töpuðum kröfum eins og um virðisaukaskatt og hins vegar að lögum um samningsveð verði breytt þannig að eignarréttarfyrirvarar heildsala varðandi birgðir, sem smásali hefur hvorki greitt né selt, gildi. Bjarni svaraði því til að hann hefði góðan skilning á áhyggjum heildsala af fyrirtækjum sem hvorki hefðu selt né greitt fyrir vörur og það mál þyrfti skoðun í dómsmálaráðuneytinu. Varðandi áfengisgjaldið væru hins vegar stífar reglur varðandi innheimtu þess vegna þess að freistnivandi gæti sprottið upp. Veitingahús gætu sett greiðslu annarra skulda fram fyrir greiðslu fyrir áfengi í trausti þess að birgjar fengju áfengisgjaldið endurgreitt frá ríkinu.

Ólafur spurði Bjarna jafnframt út í ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, um að ástæða væri til að hækka tolla til að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu. Bjarni sagði að stjórnvöld hefðu vakið athygli á innlendri framleiðslu. Eins hefði landbúnaðarráðherra tilkynnt að efla ætti stuðning við garðyrkju. „Ef menn vilja treysta matvælaöryggi og efla framleiðslu úr þeim gæðum sem við höfum á Íslandi þá eru fyrst og fremst tvær leiðir færar. Leiðin sem ríkisstjórnin hefur boðað er að efla innlendu framleiðsluna og hún felur ekki í sér tollahækkanir. Það væri þá hin leiðin, að taka af fólki valkosti með hreinum tollahækkunum,“ sagði Bjarni. „Það er hægt að koma í veg fyrir að menn geti átt viðskipti með innflutninginn með því að reisa tollavegg. Ég er ekki hrifinn af því. Á hinn bóginn er hægt að segja að það sé sanngjarnt að jafna upp að einhverju marki ólíka samkeppnisstöðu þeirra sem eru að framleiða á Íslandi í samkeppni við vörur, sem flæða í mörgum tilvikum tollfrjálst til landsins eða með mjög takmörkuðum tollum og hafa verið niðurgreiddar í heimalandinu. Það er leiðin sem ég er miklu hrifnari af, að styðja þessa innlendu framleiðslu en byggja að öðru leyti á valfrelsi neytendanna.“

Eðlilegt að skoða gildistíma tollkvóta
Magnús Óli hjá Innnesi spurði út í tollkvóta til innflutnings á búvörum, sem fyrirtæki hafa greitt fyrirfram en sjá nú fram á að sitja uppi með tjón vegna þess að engin eftirspurn er eftir vörum sem greiddur var kvóti fyrir. FA sendi atvinnuvegaráðuneytinu um miðjan mars erindi um framlengingu á gildistíma núgildandi tollkvóta, en tollkvótarnir renna að óbreyttu út í lok júní. Ekki hafa nein svör borist frá ráðuneytinu. Bjarni sagði þetta góða ábendingu og dæmi um mál sem þyrfti að skoða í samvinnu við atvinnuvegaráðuneytið. „Þetta er í rauninni dæmi um brostnar forsendur,“ sagði Bjarni.

 

Nýjar fréttir

Innskráning