Ekki í boði

21.12.2017

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Viðskiptablaðinu 21. desember 2017.

Frásagnir kvenna af kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun í fyrirtækjum og stofnunum undir merkjum #metoo verða vonandi til þess að eigendur og stjórnendur fyrirtækja á Íslandi geri átak í að útrýma slíku úr vinnustaðamenningunni.

Stjórn Félags atvinnurekenda hefur ályktað um #metoo-byltinguna og skorað á félagsmenn sína að tryggja að framangreint athæfi líðist ekki í fyrirtækjum þeirra.

Það sem stingur hvað mest í augu í hinni ljótu sögu sem sögð er undir merkjum #metoo eru ítrekaðar frásagnir af úrræðaleysi stjórnenda fyrirtækja og stofnana og vangetu þeirra til að taka á málum. Til að bæta úr því þurfa fyrirtæki að hafa skýra stefnu um að kynferðisleg áreitni og ofbeldi líðist ekki. Það þarf að vera alveg skýrt að slík hegðun sé ekki í boði og að hún hafi alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem hefur hana í frammi. Ferlarnir þurfa að vera skýrir og grundvallaratriði er að það sé alveg ljóst hvert fólk á að leita, sé á því brotið.

FA hefur sömuleiðis bent á að atvinnurekendur bera nú þegar ríkar skyldur samkvæmt lögum og reglugerðum til að tryggja starfsmönnum sínum öruggt starfsumhverfi. Liður í því er að útbúa áhættumat og skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þar sem kemur fram hvernig koma eigi í veg fyrir einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi. Í slíkri áætlun á einnig að rekja til hvaða aðgerða verði gripið, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um slíka háttsemi.

FA býður félagsmönnum sínum aðstoð við að koma þessum málum í lag, hafi það ekki verið gert nú þegar. Aðgerðaleysi, nú þegar vandinn er kominn svona rækilega upp á yfirborðið, er nefnilega ekki heldur í boði.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning