Ekki sækja um undanþágur nema annað sé fullreynt

04.11.2020
Íris Marelsdóttir verkefnastjóri og Guðrún Aspelund yfirlæknir á sóttvarnasviði landlæknisembættisins funduðu með félagsmönnum FA í morgun.

Fyrirtæki ættu ekki að sækja um undanþágur frá 10 manna samkomutakmörkunum nema öll önnur ráð til að tryggja áframhaldandi rekstur séu fullreynd. Þetta var á meðal þess sem fram kom á fjarfundi fulltrúa sóttvarnalæknis með félagsmönnum Félags atvinnurekenda í morgun.

Þar var farið yfir stöðu faraldursins, árangurinn af sóttvarnaraðgerðum og samkomutakmörkunum sem gripið hefur verið til og fyrirspurnum félagsmanna svarað.

Meðal annars voru gefin góð ráð um eitt og annað sem fyrirtæki hafa mögulega ekki hugsað út í, eins og að hafa nægilega rúmgóð sorpílát fyrir einnota andlitsgrímur, nú þegar grímuskylda hefur verið tekin upp.

Farið var yfir reglur um fjölda í verslunum og ítrekað að tíu viðskiptavinir mega vera inni í verslun í einu, auk starfsmanna. Hámarkið er 50 í matvöru- og lyfjabúðum, nema hvað fleiri meira vera í verslunum stærri en 1.000 fermetrar, mest þó 100 manns. Sé verslunum skipt í hólf, þarf hvert hólf að hafa sérinngang.

Talsvert var spurt út í undanþágur frá samkomutakmörkunum. Samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra má veita slíka undanþágu t.d. til matvælaframleiðslu, dreifingar nauðsynjavöru og til fiskvinnslna sem eru í útflutningi. Íris Marelsdóttir, verkefnisstjóri hjá sóttvarnalækni, sagði hins vegar að gífurlegt álag væri á heilbrigðisráðuneytinu vegna beiðna og fyrirspurna um undanþágur og fyrirtæki ættu ekki að sækja um undanþágu nema öll önnur ráð hefðu verið reynd til að tryggja áframhaldandi rekstur í samræmi við samkomutakmarkanirnar. Í fyrirspurnum kom fram að fyrirtæki hafa m.a. hólfaskipt húsnæði sínu, skipt mannskap á lager á tvær vaktir og margir starfsmenn vinna heima.

Beindu fulltrúar sóttvarnalæknis þeim tilmælum til fyrirtækja, sem hafa spurningar um útfærslu samkomutakmarkana, að setja þær fram í netspjalli á covid.is, ef ekki væri unnt að svara þeim þar, yrði fyrirspyrjendum beint á réttan stað.

Glærur sem farið var yfir á fundinum

Nýjar fréttir

Innskráning