Endurskoðun tollasamnings þýðir meira frjálsræði

17.12.2020

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tilkynnti í dag að hann hefði óskað eftir viðræðum við Evrópusambandið um endurskoðun á tollasamningi Íslands og ESB frá 2015, sem tók gildi árið 2018. Félag atvinnurekenda skorar á ráðherrann að beita sér í þeim viðræðum fyrir enn frekari útvíkkun fríverslunar með matvörur á milli Íslands og ríkja ESB, í samræmi við 19. grein EES-samningsins. Samningurinn skuldbindur báða aðila til að halda áfram viðleitni sinni til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Niðurstaða endurskoðunarinnar getur því aldrei orðið önnur en meira frjálsræði í viðskiptum.

FA telur að endurskoðun á tollasamningnum sé ekki óeðlileg, enda kveður 19. grein EES-samningsins á um að endurskoða skuli skilyrði fyrir viðskipti með landbúnaðarafurðir á tveggja ára fresti, en því hefur ekki verið sinnt sem skyldi á þeim aldarfjórðungi sem samningurinn hefur verið í gildi.

FA fagnar jafnframt þeirri vönduðu úttekt á samningnum, forsögu hans og framkvæmd, sem utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafa látið vinna. Þar koma fram ýmis atriði sem FA þykja mikilvæg:

  • Verslunin og íslenskir neytendur hafa notið góðs af auknu vöruúrvali og hagstæðu vöruverði vegna tollasamningsins. Íslenskur landbúnaður hefur fengið nauðsynlega samkeppni, sem mikilvægt er að hann hafi áfram.
  • Innflutningur landbúnaðarvara hefur undanfarin ár verið nauðsynlegur til að anna eftirspurn markaðarins og allar líkur eru á að svo verði áfram, en það er metið sem svo í úttektinni að innanlandsmarkaður fyrir kjötvörur verði orðinn jafnstór árið 2021 og hann var árið 2019.
  • Ísland er háð greiðum utanríkisviðskiptum og á mikið undir því að farið sé að fyrirframgefnum leikreglum og gerðir samningar virtir af öllum aðilum. Allt sem raskar stöðugleika skapar óvissu og torveldar langtímaskipulag viðskipta.
  • Skammtímavandi sem felst í minni eftirspurn eftir innlendum búvörum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar verður ekki leystur með breytingum á alþjóðasamningum, sem taka langan tíma.
  • Fram kemur með skýrum hætti að hagsmunaaðilar í landbúnaði óskuðu sjálfir eftir því, flestir skriflega og sumir munnlega á fundum með stjórnvöldum, að tollasamningurinn yrði gerður til að efla tækifæri til útflutnings íslenskra búvara á ESB-markað.
  • Tollkvótar sem Ísland veitir ESB hafa verið fullnýttir og mikil eftirspurn hefur verið meðal neytenda eftir búvörum frá ríkjum sambandsins.
  • Íslenskir framleiðendur búvara hafa aðeins nýtt sína tollkvóta til útflutnings á ESB-markaðinn að litlum hluta.

„Við hvetjum utanríkisráðherra til að beita sér fyrir enn frekari fríverslun við Evrópusambandið. Það er allra hagur að viðskipti við okkar langstærsta markaðssvæði séu sem allra frjálsust. EES-samningurinn gerir beinlínis ráð fyrir að haldið sé áfram á þeirri braut,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Það er ekki í boði að snúa klukkunni til baka og draga úr frjálsum viðskiptum eins og hagsmunaaðilar í landbúnaðinum hafa farið fram á. Þeir geta ekki heimtað að verslunin og neytendur taki á sig viðskiptahöft og verðhækkanir af því að þeim hefur sjálfum ekki tekist að koma bestu búvörum í heimi, að eigin sögn, á markað erlendis.“

Nýjar fréttir

Innskráning