Enginn tók slaginn fyrir 76% toll á franskar

10.10.2016
IMG_2484
Ríkið leggur 76% toll á franskar kartöflur og hefur varið þá ráðstöfun fyrir dómstólum.

Svo virðist sem það ætti að verða auðsótt mál á næsta Alþingi að fá 76% ofurtoll á franskar kartöflur afnuminn, því að enginn frambjóðandi mælti honum bót á á fundi FA um landbúnaðarmál, sem haldinn var í síðustu viku. Flestir frambjóðendur sögðu ýmist skýrt að þeir vildu afnema tollinn eða að þeir skildu ekki nauðsyn hans.

FA lagði fyrir frambjóðendur eftirfarandi spurningu: „Eru það verndarsjónarmið sem búa að baki 76% tolli á franskar kartöflur? Mun þinn flokkur beita sér  fyrir afnámi þessara gjalda þegar fyrir liggur að nær ekkert íslenskt hráefni er í innlendri framleiðslu?“

Óskiljanlegur tollur
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist aldrei hafa skilið ofurtollinn á franskar kartöflur. Hann minnti á að hans flokkur hefði ekki bara talað um tollalækkanir, heldur hrint þeim í framkvæmd. „Við höfum ekki bara talað, heldur höfum verið að framkvæma, og ætlum að halda því áfram,“ sagði Guðlaugur.

Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að Framsóknarmenn væru ekki endilega að berjast fyrir því að halda þessum tolli. „Þetta er eitthvað sem er nauðsynlegt að skoða í samhengi við aðrar úrbætur og hagsmunamat sem þarf að fara fram,“ sagði hún.

IMG_2809
Frá fundi FA um landbúnaðar- og tollamál.

Smári McCarthy, frambjóðandi Pírata, sagðist ekki skilja tilganginn með frönskutollinum og lýsti sig andvígan honum. Hann minnti á að hefðu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur haft vilja til að afnema tollinn hefðu mörg tækifæri farið forgörðum, því að þeir flokkar hefðu verið í aðstöðu til þess.

Munu beita sér fyrir afnámi
Árni Páll Árnason, Samfylkingu, sagði að flokkurinn hefði áratugum saman barist gegn furðutollum af þessu tagi. Tollmúrar hefðu komið í veg fyrir vöruþróun og eðlilega framþróun landbúnaðarins.

Pawel Bartoszek, frambjóðandi Viðreisnar, sagðist ekki sjá nokkurn tilgang í að viðhalda ofurtolli á franskar kartöflur. Það hefði ekkert með erlent eða innlent hráefni að gera; inn- og útflutningur ætti að vera frjáls.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði sinn flokk á móti tollum á franskar kartöflur og hefði stutt tillögur um að þeir féllu niður.

Dæmi um öfgarnar í kerfinu
Kolbeinn Óttarsson Proppé, frambjóðandi Vinstri grænna, sagði að ekkert væri í stefnuskrá VG um afnám tolls á franskar. Með spurningunni væru dregnar fram öfgarnar í því kerfi sem við byggjum við. Þessi 76% tollur þýddi hins vegar ekki endilega að allt kerfið væri rotið.

Horfa má á fundinn í heild á Facebook-síðu FA.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning