Enn hækkar útboðsgjald fyrir ESB-tollkvóta

12.06.2017

Útboðsgjald, sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir tollfrjálsan innflutning á búvörum frá Evrópusambandinu, hækkaði mikið í síðasta útboði á tollkvóta, en niðurstöður þess voru kunngjörðar á fimmtudag. Dæmi eru um allt að 45% hækkun útboðsgjaldsins frá því á fyrri hluta ársins, en kvótinn er nú boðinn upp tvisvar á ári.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það hafi gengið eftir sem félagið varaði við, að fjölgun útboða úr einu í tvö á ári myndi leiða til þess að útboðsgjaldið myndi hækka og þá sömuleiðis útsöluverð á innfluttum búvörum. „Atvinnuvegaráðuneytið hefur nú ákveðið að falla frá því að bjóða upp kvóta samkvæmt WTO-samningnum tvisvar á ári og mun gera það árlega, eins og áður var. Að okkar mati liggur algjörlega í augum uppi að fara sömu leið varðandi ESB-kvótana, því að þetta nýja fyrirkomulag hefur gefist illa,“ segir Ólafur.

Skinkukvótinn hækkar um 45%
Útboðsgjald fyrir innflutningskvóta vegna nautakjöts hækkar um tæplega 12% milli árshelminga. Svínakjötskvótinn hækkar um rúmlega 26%, kvóti vegna innflutnings á þurrkuðu og reyktu kjöti, t.d. Parma- og Serrano-skinku, um tæplega 45% og kvóti fyrir pylsur um 30%, enda er sívaxandi eftirspurn eftir slíkum vörum. Hins vegar lækkar útboðsgjald vegna ostakvóta um 16,5%. Að mati Ólafs á það sér skýringu í því að í síðasta útboði hækkaði það um nærri 87% frá árinu 2016, sem var væntanlega skot yfir markið. Hann bendir jafnframt á að útboðsgjald fyrir alifuglakvóta hefur haldist meira og minna óbreytt frá 2014. „Ástæðan er sú að útboðsgjaldið hefur í raun náð jafnvægi við þann kostnað, sem fyrirtækin hafa af því að flytja inn alifuglakjöt á fullum tolli frá ESB. Þróunin í öðrum vörum stefnir í sömu átt. Þannig étur þetta útboðskerfi upp ávinning neytenda af tollfrelsinu,“ segir Ólafur.

Fyrirkomulagið áfram ólögmætt
Hæstiréttur dæmdi útboðsgjaldið ólögmætt og andstætt stjórnarskrá í janúar 2016. Að mati FA er fyrirkomulag úthlutunar tollkvóta áfram ólögmætt, þrátt fyrir breytingar á búvörulögum, og hafa nokkur innflutningsfyrirtæki stefnt ríkinu á nýjan leik. „Það verður að finna nýja lausn á úthlutun tollkvóta. Það er fráleitt fyrirkomulag að ríkið taki hundruð milljóna í gjöld af innflutningsfyrirtækjum og sé svo jafnóðum dæmt til að endurgreiða þau,“ segir Ólafur.

Meira en 400 milljónir frá neytendum til ríkisins
Samkvæmt niðurstöðum útboðanna tveggja á ESB-tollkvóta vegna fyrri og seinni hluta ársins 2017 munu rúmlega 407 milljónir renna úr vösum neytenda og til ríkisins vegna útboðsgjaldsins. Það er rúmlega 23% hærri upphæð en á síðasta ári, þegar útboðsgjaldið nam samtals um 330 milljónum.

Ekkert útboðsgjald á Parmesan og fleiri ostum
Þetta gerist þrátt fyrir einu góðu fréttirnar varðandi úthlutun tollkvóta, að mati Ólafs, en það er að nú er 20 tonna kvóta fyrir osta sem njóta verndar tegundarheitis vegna uppruna eða landsvæðis (t.d. Parmesan) í fyrsta sinn úthlutað með hlutkesti og fær hver umsækjandi í mesta lagi 15% af kvótanum. Þessi breyting var gerð við afgreiðslu breytinga á búvörulaga vegna búvörusamninganna á síðasta kjörtímabili og kom inn í lögin að tillögu þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis. „Þessi breyting var skref í áttina og sýnir að það er hægt að úthluta tollkvótanum með öðrum aðferðum en uppboði,“ segir Ólafur.

Umsvifamikill svínaræktandi fær 67% af svínakjötskvótanum
FA vekur athygli á að enn á ný býður Mata ehf. hæst í tollkvóta fyrir svínakjöt og fær í sinn hlut 67% af honum, eða 67 tonn af 100. Mata er systurfyrirtæki Síldar og fisks, sem að mati Samkeppniseftirlitsins hefur 40-45% hlutdeild á svínakjötsmarkaðnum. Mata fékk einnig rúmlega 48% tollkvótans fyrir alifuglakjöt en móðurfélag Mata, Langisjór, er jafnframt eigandi kjúklingaframleiðandans Matfugls. „Við höfum ítrekað bent á að það sé afar óheppileg afleiðing útboðsfyrirkomulagsins að innlendir framleiðendur geti boðið hátt í tollkvótana og þannig stuðlað að því að halda uppi verði á innflutningi,“ segir Ólafur.

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning