Enn hækkar útboðsgjald og þrýstir á vöruverð

30.08.2021
Útboðsgjald vegna tollkvóta fyrir innfluttar skinkur og pylsur hefur meira en tuttugufaldast vegna breytinga sem Alþingi gerði á búvörulögum.

Útboðsgjald, sem matvælainnflytjendur þurfa að greiða ríkinu fyrir að fá að flytja inn tollfrjálsar vörur frá ríkjum Evrópusambandsins, hækkar í langflestum tilvikum nokkuð frá því í vor, samkvæmt niðurstöðum útboðs á tollkvóta, sem atvinnuvegaráðuneytið hefur birt. Umdeild breyting, sem Alþingi gerði á búvörulögum í desember síðastliðnum, hefur í flestum tilvikum valdið miklum hækkunum á gjaldinu, en þá var tekin upp tímabundið eldri aðferð við útboð tollkvóta til að vernda innlenda framleiðendur fyrir samkeppni. Engum blöðum er um það að fletta að mati FA að þessi gjörð Alþingis hefur valdið hækkunum á vöruverði, á sama tíma og verðbólga er verulega umfram markmið Seðlabankans og stjórnvöld ættu að vinna gegn henni.

Meira en tuttuguföldun á útboðsgjaldi fyrir skinkur og pylsur
Eins og sjá má í töflunni hér að neðan, hækkar útboðsgjald vegna kvóta fyrir innfluttar skinkur, pylsur og eldaðar kjötvörur mest frá síðasta útboði, eða um 10-19%. Eingöngu útboðsgjald fyrir lífrænt ræktað alifuglakjöt stendur hér um bil í stað.

Í töflunni, sem og í grafinu hér að neðan, sést skýrt að útboðsgjald vegna tollkvóta fyrir flestar tegundir búvöru lækkaði skarpt þegar svokallað jafnvægisútboð var tekið upp í ársbyrjun 2020, en aðeins eitt tollkvótaútboð fór fram með þeirri aðferð. Yfirlýstur tilgangur þeirrar breytingar var að lækka kostnað vegna útboða og lét Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa eftir sér að eldra fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta hefði verið „bæði óeðlilegt og ósanngjarnt, sérstaklega fyrir hagsmuni neytenda.“

Jafnframt sést vel að síðan sú aðferð var tekin upp á ný, hefur gjaldið fyrir tollkvóta af flestum tegundum hækkað gríðarlega. Þannig hefur útboðsgjald vegna nautakjöts hækkað um 64% og um 105% vegna lífrænt ræktaðs alifuglakjöts en langmesta hækkunin er á útboðsgjaldi fyrir skinku- og pylsukvóta, sem hefur meira en tuttugufaldast í báðum tilvikum. Í krónum talið er hækkunin á útboðsgjaldi vegna svínakjöts og osta 34 krónur á kíló, en í öðrum afurðum nemur hækkunin 117 til 234 krónum á kíló.

Að mati FA er engum blöðum um það að fletta að þessar hækkanir á kostnaði innflytjenda þrýsta á hækkun verðs á innfluttum búvörum. Í skjóli þess geta svo innlendir framleiðendur haldið uppi verði á sinni vöru – enda er leikurinn til þess gerður. Niðurstaðan er hærra matarverð en ella.

Stjórnvöld stuðla meðvitað að verðbólgu
Verðbólga hefur farið vaxandi að undanförnu, þannig greindi Hagstofan frá því í morgun að tólf mánaða verðbólga væri 4,3%. Það er 1,8% yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og hefur verðbólga ekki verið meiri í átta ár. „Við gagnrýnum harðlega að stjórnvöld skuli með þessum hætti beita sér meðvitað fyrir hækkunum vöruverðs einmitt þegar þau ættu að grípa til aðgerða til að halda verðbólgu niðri,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Þessi verndaraðgerð var rökstudd með erfiðleikum vegna kórónuveirufaraldursins. Við erum ekki ósammála því að innlendir búvöruframleiðendur verðskuldi aðstoð eins og önnur fyrirtæki sem hafa orðið fyrir búsifjum vegna faraldursins. En sá stuðningur ætti að vera beinn og gegnsær eins og gagnvart öðrum fyrirtækjum og ekki stuðla að því að raska samkeppni og hækka vöruverð. Þessari COVID-aðgerð hafa stjórnvöld klúðrað mjög rækilega.“

Fyrsta rafræna útboðið
Tollkvótaútboðið nú er það fyrsta sem fram fer með rafrænum hætti. „Fyrir vikið liggur niðurstaða úthlutunar fyrir meira en tveimur vikum fyrir upphaf kvótatímabilsins, eins og FA hefur ítrekað knúið á um. Þetta er ánægjuleg breyting, að mati Félags atvinnurekenda.

 

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning