Útboðsgjald, sem innflutningsfyrirtækjum er gert að greiða fyrir tollkvóta fyrir búvörur frá ríkjum Evrópusambandsins, hækkar enn samkvæmt niðurstöðum útboðs á tollkvóta fyrir árið 2018. Mesta hækkunin er á tollkvóta fyrir nautakjöt (13,2%) og pylsur (14,7%). Eini vöruflokkurinn þar sem útboðsgjaldið lækkar er alifuglakjöt, en þar lækkar meðalgjaldið á kíló úr 635 krónum í 620, eða um 2,2%. Það á sér þá einföldu skýringu að útboðsgjald á alifuglakjöti er löngu orðið álíka hátt og kostnaðurinn við að flytja kjötið inn á fullum tolli frá ESB.
Tollkvótar eru heimildir til að flytja inn vörur á lægri tolli en ella eða án tolla. Í samningi Íslands og ESB frá 2007 er kveðið á um innflutning á tilteknu magni án tolla. Tvö- til fjórföld eftirspurn var eftir tollkvóta í flestum vöruflokkum. Það gerist þrátt fyrir að í maí næstkomandi muni nýr tvíhliða samningur Íslands og ESB frá 2015 um viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi, en með honum verða tollkvótar fyrir búvörur stækkaðir talsvert. Nýtt útboð mun því fara fram í maí. Kerfið virkar þannig að innflutningsfyrirtæki bjóða í tollkvótann til að tryggja sér skerf af honum og er innflutningsheimildunum úthlutað til hæstbjóðenda. Niðurstaða útboðsins þýðir að um 420 milljónir króna renna úr vösum neytenda til ríkisins vegna innheimtu útboðsgjalds á þessu ári og er þá ekki tekið tillit til útboðsgjalds sem verður innheimt eftir útboðið í maí.
Ríkið áfrýjar ekki dómi um ólögmæti útboðsgjalds
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, vekur athygli á því að útboðsgjaldið hafi hækkað um tugi og jafnvel hundruð prósenta á fjórum árum vegna sívaxandi eftirspurnar eftir innfluttri búvöru. Þannig éti útboðsgjaldið upp ávinning neytenda af samningum Íslands og ESB um tollfrelsi fyrir takmarkað magn af vörum. „Á sama tímabili hafa dómstólar í tvígang dæmt álagningu útboðsgjaldsins ólögmæta og andstæða stjórnarskrá. Eftir dóm Hæstaréttar í janúar 2016 þurfti ríkið að endurgreiða innflytjendum um tvo milljarða króna vegna ólögmætrar álagningar útboðsgjalds. Í nóvember síðastliðnum féll aftur dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem útboðsgjaldið var á ný dæmt ólögmætt. Í vikunni bárust þær fregnir að ríkið hygðist ekki áfrýja þeim dómi. Þetta kerfi er augljóslega komið að fótum fram, þar sem tollkvótum er úthlutað með uppboði til að vernda innlenda framleiðslu og dómstólar komast ítrekað að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið sé ólöglegt og endurgreiða beri gjöldin. Það er allt útlit fyrir að þetta rugl haldi áfram. Fyrirtæki innan raða FA líta enn svo á að álagning útboðsgjaldsins sé ólögmæt þrátt fyrir síðustu lagabreytingar og stefna á að sækja enn og aftur endurgreiðslu gjaldanna fyrir dómi. Það er að verða tímabært að stjórnvöld hætti þessari vitleysu og beiti sér frekar fyrir sátt um skynsamlegt fyrirkomulag á innflutningi búvara,“ segir Ólafur.
Parmesan og fleiri ostum úthlutað án útboðs
Einum vöruflokki er nú úthlutað án útboðsgjalds, en það eru ostar sem njóta verndar tegundarheitis vegna uppruna eða landsvæðis (t.d. Parmesan). Þeim er úthlutað með hlutkesti og fær hver umsækjandi í mesta lagi 15% af kvótanum. Þessi breyting var gerð við afgreiðslu breytinga á búvörulögum vegna búvörusamninganna í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar og kom inn í lögin að tillögu þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis, sem taldi osta af þessu tagi ekki vera í samkeppni við innlenda framleiðslu. „Um leið fólst í þeirri afstöðu nefndarinnar viðurkenning á því að uppboð á tollkvóta sé í raun verndaraðgerð fyrir innlendan landbúnað, en ríkið hefur löngum þrætt fyrir það. Þessi breyting sýnir hins vegar að það er hægt að úthluta tollkvótanum með öðrum aðferðum en uppboði og það hlýtur að vera grundvöllur fyrir umræðu um breytingar. FA hefur bent á aðrar leiðir sem eru hagstæðari bæði fyrir neytendur og innflytjendur,“ segir Ólafur.