Enn tefja stjórnvöld leiðréttingu á tollflokkun pitsuosts – FA skrifar fjármálaráðherra

20.01.2026

Fjármálaráðuneytið svaraði fyrirspurn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um hvenær væri von á lagafrumvarpi til að leiðrétta tollflokkun á pitsuosti, með því að segja að taka ætti málið upp í viðræðum við Bændasamtök Íslands um endurnýjun búvörusamninga og vænta mætti frumvarps að þeim loknum, með vorinu. Félag atvinnurekenda gagnrýnir svör ráðuneytisins harðlega og bendir á að hlítni Íslands við alþjóðasamninga á borð við EES-samninginn eða samninginn um Alþjóðatollastofnunina geti ekki verið neitt samningsatriði við einkaaðila á borð við Bændasamtök Íslands.

ESA komst að þeirri niðurstöðu, eftir að FA hafði kvartað til stofnunarinnar, að röng tollflokkun á pitsuosti með viðbættri jurtaolíu, sem leiðir til þess að hann ber háa tolla, væri brot á EES-samningnum. Fjármálaráðuneytið viðurkennir ekki að Ísland hafi brotið gegn EES, en sagði í svarbréfi til ESA í september síðastliðnum að lagt yrði fram frumvarp á Alþingi til að leiðrétta tollflokkunina til samræmis við ákvörðun Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) vorið 2003.

ESA krafðist frekari svara um hvenær slíks frumvarps væri að vænta. Í svarbréfi ráðuneytisins, sem dagsett er 24. nóvember sl., kemur fram að frumvarp verði undirbúið í nánu samstarfi við atvinnuvegaráðuneytið. Síðarnefnda ráðuneytið hafi byrjað viðræður við Bændasamtök Íslands um endurnýjun núgildandi búvörusamninga, sem falli úr gildi í árslok 2026. Ráðuneytið segir að þessar viðræður eigi meðal annars að fjalla um áhrif breytinga á tollflokkuninni á innlenda framleiðendur. Íslensk stjórnvöld telji mikilvægt að ljúka viðræðum við Bændasamtökin um hinar áformuðu breytingar á tollalögunum áður en lagt verði fram frumvarp á Alþingi. Ráðuneytið greinir jafnframt frá því að þess hafi verið vænst að viðræður yrðu komnar vel áleiðis er bréfið var sent, en þær hafi dregist vegna anna í atvinnuvegaráðuneytinu. Nú sé búist við að viðræður verði vel á veg komnar vorið 2026 og þá sé kominn grundvöllur til að leggja fram frumvarp á Alþingi til breytinga á tollalögum.

Hlítni við alþjóðasamninga ekki samningsatriði við einkaaðila
Í erindi sínu til Daða Más Kristóferssonar fjármála- og efnahagsráðherra lýsir FA yfir mikilli furðu á þessu svari ráðuneytisins til ESA og bendir á tvennt.

„Í fyrsta lagi getur hlítni Íslands við alþjóðasamninga á borð við EES-samninginn eða samninginn um Alþjóðatollastofnunina ekki verið neitt samningsatriði við einkaaðila á borð við Bændasamtök Íslands. Sama gildir um viðhald þeirrar löngu – og þar til nýlega óslitnu – stjórnsýsluhefðar að fara eftir álitum Alþjóðatollastofnuninnar um tollflokkun. Það skiptir máli fyrir traust í milliríkjaviðskiptum Íslands að ákvarðanir stjórnvalda sveiflist ekki eftir duttlungum sérhagsmunahópa, heldur sé farið að alþjóðlegum skuldbindingum,“ segir í bréfi FA.

FA segir að því verði illa trúað að núverandi ríkisstjórn hyggist halda áfram þeim stjórnsýslufarsa sem einkenndi tollflokkunarmálið í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, þar sem látið var undan kröfum sérhagsmunaaðila í landbúnaði, gengið gegn áliti tollflokkunarsérfræðinga Skattsins þannig að þeir sögðu sig frá málinu, gögnum var stungið undir stól og þeim meðal annars leynt fyrir dómstólum og stjórnsýslulög brotin á félagsmanni FA, sem flutti inn vöruna sem um ræðir, með því að halda ítrekað frá honum gögnum málsins. „Nú þykir FA einfaldlega kominn tími til að fara að lögum og alþjóðasamningum,“ segir í bréfi félagsins til ráðherra.

Stefnir ekki í að viðræðum ljúki í vor
Í öðru lagi bendir FA á að fyrir liggur að atvinnuvegaráðuneytið hefur lagt til við Bændasamtök Íslands að gildistími núverandi búvörusamninga verði framlengdur út árið 2027. „Fyrir vikið mun viðræðum um búvörusamninga væntanlega alls ekki ljúka nú í vor. Þetta lá fyrir opinberlega snemma í nóvember, áður en ráðuneytið sendi ESA ofangreint erindi, og verður bréfið enn furðulegra í því ljósi,“ segir í erindi FA.

Bréf FA til fjármálaráðherra
Bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins til ESA

Nýjar fréttir

Innskráning