Er áfengisfrumvarpið helgur texti?

10.03.2016

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Morgunblaðinu 10. mars 2016.

ÁfengiSkafti Harðarson verzlunarmaður skrifar grein í Morgunblaðið 8. marz um afstöðu Félags atvinnurekenda til áfengisfrumvarps Vilhjálms Árnasonar og fleiri þingmanna. Greinin er því miður full af rangfærslum og útúrsnúningum. Hér verður reynt að leiðrétta það helzta og ítreka afstöðu FA til frumvarpsins eins og hún kemur fram í umsögn til Alþingis.

Gallað frumvarp
FA er andsnúið ríkiseinokun og styður markaðs- og viðskiptafrelsi á öllum mörkuðum, líka áfengismarkaðnum. Félagið hefur ekki treyst sér til að lýsa stuðningi við áfengisfrumvarpið vegna þess að með samþykkt þess í óbreyttri mynd yrði umhverfi viðskipta með áfengi áfram mjög óheilbrigt. Það er í fyrsta lagi vegna þess að flutningsmenn frumvarpsins virðast ekki skilja til hlítar núverandi lagaumhverfi, í öðru lagi vegna þess að ekki er gert ráð fyrir að ganga nógu langt í að aflétta hömlum á sölu og markaðssetningu áfengis og í þriðja lagi vegna þess að settar eru á nýjar hömlur með frumvarpinu. Þetta gengur þvert á þau rök flutningsmanna að áfengi sé almenn neyzluvara.

Misskilningur um áfengisgjald
Þegar frumvarpið var lagt fram í fyrsta sinn kom í ljós að flutningsmenn þess héldu að smásalan, ÁTVR, stæði skil á áfengisgjaldi til ríkissjóðs. Þannig er það ekki; það eru heildsalar áfengis sem standa skil á áfengisgjaldinu við afhendingu eða innflutning vörunnar. FA benti strax á að ef smásalan færðist af höndum ÁTVR og yfir til almennra verzlana yrði gera breytingu á þessari gjaldheimtu og innheimta áfengisgjaldið á smásölustiginu; annað myndi hafa afar neikvæð áhrif á sjóðstreymi og rekstrarhæfi framleiðslu- og innflutningsfyrirtækja vegna mun lengri gjaldfresta á almennum smásölumarkaði. Þegar frumvarpið var lagt fram að nýju kom í ljós að flutningsmenn þess eru enn haldnir sama misskilningi, þrátt fyrir að hafa oftsinnis verið leiðréttir. Breyting á skattlagningu áfengis um áramót, þar sem áfengisgjaldið var hækkað á móti lækkun virðisaukaskatts, magnar enn upp neikvæð áhrif þessa galla á frumvarpinu.

Ónýtt auglýsingabann
FA hefur lagt ríka áherzlu á að samhliða afnámi ríkiseinkasölu á áfengi yrði bann við áfengisauglýsingum afnumið. Félagið hefur lagt fyrir allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis tillögur um hvernig hægt væri að leyfa auglýsingar með skýrum takmörkunum. Framleiðendur og innflytjendur væru þá reiðubúnir að undirgangast siðareglur um áfengisauglýsingar og siðanefnd, sem gæti tekið hart á brotum á þeim reglum. Auglýsingabannið er hriplekt og kemur aðallega niður á hagsmunum innlendra framleiðenda. Auglýsingar um erlendar áfengistegundir birtast landsmönnum í gegnum ýmsa erlenda miðla sem þeir hafa aðgang að. Lagaumhverfið gerir ráð fyrir að áfengisauglýsingar séu ekki til og fyrir vikið eru ekki til neinar reglur um hvernig þær eigi að vera úr garði gerðar, að hverjum þær megi beinast, hvort þeim skuli fylgja áminning um ábyrga áfengisneyzlu o.s.frv.

Hvorki þingnefndin né flutningsmenn frumvarpsins hafa tekið nokkurt mark á þessum tillögum. Þvert á móti er hnykkt á núverandi auglýsingabanni og viðurlögum við því í endurskoðuðu frumvarpi. Það sætir furðu, af því að flutningsmenn þess ganga út frá að áfengi sé almenn neyzluvara. Þá er hvorki ástæða til að takmarka aðgengi að því með einkarétti ríkisins á smásölu né með því að banna að það sé auglýst og kynnt fyrir neytendum.

Auglýsingabannið mismunar
Skafti Harðarson segir í grein sinni að FA sé ofarlega í huga „sú raunhæfa hætta sem innmúruðum innflytjendum áfengis stafar af samkeppni, enda er varað við áformum innlendra verslana að flytja inn þær vörur sem varðmenn einokunarinnar hafa setið að um áratugaskeið.“ Hér er farið rangt með. FA varar ekki við einu eða neinu í þessum efnum. Félagið bendir eingöngu á að færist smásala áfengis úr ríkiseinokunarumhverfi yfir í fákeppnisumhverfi smásölumarkaðarins án þess að auglýsingabannið sé afnumið, eru stóru smásölukeðjurnar komnar í mjög sterka stöðu til að ráða því hvaða áfengistegundir seljast og hverjar ekki, vegna þess að innflytjendum og framleiðendum er bannað að auglýsa vöru sína.

Í umsögn FA er vísað til áforma verzlanakeðja um að flytja sjálfar inn áfengi. Síðan segir þar orðrétt: „Eigin innflutningur stóru verzlanakeðjanna yrði þá áberandi í áfengishillum stórmarkaðanna. Þetta er staða sem er kunnugleg fyrir heildsala í matvöru og annarri dagvöru. Stóri munurinn er sá að innflytjendur slíkrar vöru geta vakið athygli á eigin vörumerkjum og ýtt undir áhuga neytenda með auglýsingum. Gangi frumvarpið fram óbreytt munu áfengisheildsalar hins vegar ekki eiga neinn slíkan kost. Að óbreyttum ákvæðum frumvarpsins myndi því enn halla á heildsölustigið gagnvart smásölustiginu.

Með því að áfengi verði selt í almennum verzlunum kemur það oftar og víðar fyrir sjónir almennings en nú. Í útstillingum og kynningum í verzlunum felst bein og óbein auglýsing, sem enn og aftur verður á forræði smásöluverzlananna. Ekkert væri óeðlilegt við það ef framleiðendum og innflytjendum áfengis væri jafnframt frjálst að auglýsa vöru sína.“

Áfengi fyrir bannerNýjar hömlur
FA bendir á að frumvarpshöfundar vilja koma á nýjum hömlum á sölu og markaðssetningu áfengis með því að skikka verzlanir til að loka sterkt áfengi af í sérstökum rýmum eða á bak við búðarborð. Enginn rökstuðningur er fyrir þessari mismunun í greinargerð frumvarpsins. Ef tilgangurinn er forvarnir verður því markmiði varla náð með þessu, því að ekki er síður hætta á misnotkun léttvíns og bjórs en sterks áfengis.

Óttinn við meira frelsi
Skafti Harðarson segir í grein sinni: „Af stuðningsyfirlýsingu við ríkisrekstur, sem umsögn félagsins sannarlega er, má ráða, að einna helst vill félagið tryggja aukið aðgengi að auglýsingum og lægri opinberar álögur á vörur félagsmanna sinna svo lengi sem ríkið annist áfram sölu þess [svo].“

Þetta er bull. FA leggur áherzlu á að afnámi ríkiseinokunar fylgi afnám auglýsingabanns og endurskoðun á öðrum þeim hömlum sem lagðar eru á sölu og markaðssetningu þessarar vöru umfram aðrar, auk skattpíningarinnar sem er komin út úr öllu korti með einhverjum hæstu áfengisgjöldum í heimi.

Það er annars merkilegt hvað margir frjálshyggjumenn, eins og Skafti segist oft vera, eru viðkvæmir fyrir gagnrýni á áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar, sérstaklega þegar hún gengur út á að það gangi of skammt í frjálsræðisátt. Það mætti stundum halda að frumvarpið væri einhvers konar helgur frjálshyggjutexti, sem Hayek og Friedman hefðu skrifað saman og væru helgispjöll að hrófla við. Flutningsmenn þess vilja helzt ekki hnika til orði og harðneita að taka til greina athugasemdir FA og fleiri hagsmunasamtaka fyrirtækja, vilja ekki einu sinni hlusta á leiðréttingar á staðreyndavillum og misskilningi. Er það leiðin til að koma á langþráðu viðskiptafrelsi?

Grein Ólafs Stephensen í Morgunblaðinu

Nýjar fréttir

Innskráning