Erindi FA um lögmæti netverslunar með áfengi enn ósvarað

14.09.2021
Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag.

Erindi Félags atvinnurekenda til stjórnarráðs Íslands um lögmæti netverslunar með áfengi er enn ósvarað, meira en mánuði eftir að fjármálaráðuneytinu var fyrst sent erindi og meira en tveimur vikum eftir að það ráðuneyti áframsendi erindi FA til dómsmálaráðuneytisins eftir ítrekun.

Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag og rakið að ýmis fyrirtæki, með staðfestu á Íslandi eða í öðrum löndum, stundi netverslun með áfengi á Íslandi. „Stjórnvöld hafa ekki með neinum hætti gripið inn í starfsemi þessara fyrirtækja. Þá er hægt að draga þá ályktun að starfsemin sé lögleg. Fjármálaráðherra hefur meira að segja sagt það að hann sjái ekki annað en að starfsemin sé lögleg,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA í samtali við blaðið. „Undirstofnun fjármálaráðuneytisins, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, hefur hins vegar farið fram með býsna mikilli hörku gagnvart netverslunum og kært bæði til lögreglu og skattayfirvalda. Þarna er skrítin staða uppi. Ráðamenn segjast ekki sjá annað en að starfsemin sé lögleg en opinber stofnun stendur í því að kæra menn. ÁTVR virðist þannig vísvitandi vinna gegn fyrirsjáanleika og öryggi í viðskiptum með þessa löglegu vöru.“

Óvissa bagaleg fyrir fyrirtæki
Haft er eftir Ólafi að staðan hafi haft þau áhrif að fyrirtæki hafa hikað við að fara út í samkeppni á þessum markaði. Í ítrekunarbréfi FA til fjármálaráðuneytisins kom fram að óvissa í þessum efnum væri afar bagaleg, jafnt fyrir ný fyrirtæki, sem vilja hasla sér völl á þessum markaði, og fyrir núverandi innflytjendur og framleiðendur áfengis, sem teldu sér ekki annað fært en að bregðast við nýrri samkeppni. „Menn vilja ekki eiga yfir höfði sér lögreglurannsóknir og hafa áhyggjur af orðsporinu. Við höfum farið fram á það við stjórnvöld að þau taki af vafa um að þetta sé lögleg starfsemi,“ er haft eftir Ólafi.

Meira en mánuði eftir að erindi var sent á stjórnarráðið hafa ekki borist svör. „Okkur finnst þetta sérkennilegt. Stjórnvöld hafa leiðbeiningarskyldu gagnvart fyrirtækjunum, auk þess sem gera verður kröfu um að þau leiðrétti rangfærslur undirstofnana sinna. Það eru margir sem hafa hug á því að taka þátt í samkeppninni á þessum nýja markaði en vilja vera vissir um að það sé innan ramma laga og reglna. Það er skylda stjórnvalda að leiðbeina fyrirtækjum um það,“ segir Ólafur Stephensen í Fréttablaðinu.

Umfjöllun Fréttablaðsins

Nýjar fréttir

Innskráning