Erna flækir einfalt mál

11.08.2025

Grein Páls Rúnars M. Kristjánssonar, formanns Íslensk-evrópska verslunarráðsins, í Morgunblaðinu 11. ágúst 2025

Erna Bjarnadóttir, talsmaður Mjólkursamsölunnar, hafði langt mál í grein í Morgunblaðinu sl. föstudag um að engan veginn væri hægt að bera saman verndartolla, sem Evrópusambandið hyggst leggja á kísiljárn, meðal annars frá Íslandi og Noregi, og tolla sem eru lagðir á vegna rangrar tollflokkunar Íslands á jurtaolíublönduðum osti, sem er ætlaður til að bræða ofan á pitsur og annað brauðmeti. Sakaði hún undirritaðan um að bera saman ólík mál og var hjartanlega sammála afstöðu hans varðandi það að verndartollar ESB brjóti í bága við EES-samninginn, en ósammála þeirri afstöðu Íslensk-evrópska verslunarráðsins – og Eftirlitsstofnunar EFTA – að röng tollflokkun á pitsuostinum sé brot á sama samningi. Sammála þeirri afstöðu ÍEV að tollflokkunin sé röng eru raunar helstu tollflokkunarsérfræðingar Skattsins, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Alþjóðatollastofnunin og Eftirlitsstofnun EFTA (samandregið fólk sem veit um hvað það er að tala).

Þetta mál er ósköp einfalt. Áform ESB um verndartolla og röng og ólögmæt tollflokkun íslenskra stjórnvalda á pitsuostinum eru af sama meiði; með brotum á EES-samningnum er verið að vernda sérhagsmuni fyrirtækja sem treysta sér ekki til að takast á við alþjóðlega samkeppni. Í tilviki verndartolla ESB eru það kísiljárnframleiðendur innan sambandsins. Í tilviki Íslands er það vinnuveitandi Ernu, Mjólkursamsalan.

Þegar íslensk stjórnvöld leitast réttilega við að hnekkja fyrirhuguðum samningsbrotum Evrópusambandsins veikir það samningsstöðuna að íslensk stjórnvöld skuli sjálf brjóta EES-samninginn á sviði tollamála.

Svona einfalt er málið og breytir engu þótt Erna Bjarnadóttir skrifi langan texta til að flækja það.

Nýjar fréttir

13. ágúst 2025

Innskráning