Eru forsendur tollasamnings við ESB brostnar?

27.10.2020

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 27. október 2020.

Íslenskir neytendur njóta stóraukins úrvals af gæðavörum frá ESB-ríkjum á hagstæðu verði.

Tollasamningur Íslands og Evrópusambandsins frá 2015 hefur verið til umræðu á síðum Morgunblaðsins undanfarið og hvatt til þess að honum verði sagt upp eða hann endurskoðaður. Greinarhöfundar sem sett hafa fram slíkar hvatningar, t.d. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins (10. október), og Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda (22. október), virðast vilja að klukkunni verði snúið til baka og dregið á ný úr fríverzlun með búvörur á milli Íslands og ESB.

Samrýmist ekki EES að draga úr fríverzlun
Slíkt myndi hins vegar ekki samrýmast samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Tollasamningurinn frá 2015 er gerður á grundvelli 19. greinar EES-samningsins, en þar segir: „Samningsaðilar skuldbinda sig til að halda áfram viðleitni sinni til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.“ Sú viðleitni hefur verið í mun rólegri gír en hefði mátt ætla þegar EES-samningurinn var gerður og vel hefði mátt stíga fleiri og stærri skref í átt til viðskiptafrelsis með búvörur.

Bæði Sigurður Ingi og Arnar segja að forsendubrestur hafi orðið eftir að samningurinn komst á. Báðir vísa til útgöngu Bretlands úr ESB sem brostinnar forsendu. „Með útgöngu Bretlands nýtast ekki þeir útflutningskvótar sem samið var um til ESB þar sem það magn var fyrst og fremst ætlað á Bretlandsmarkað og þar með eru hagsmunir íslenskra framleiðenda af samningnum fyrir bí,“ segir Arnar í grein sinni.

Markaðsaðgangurinn batnar við Brexit
Þetta er beinlínis rangt. Í fyrsta lagi voru stærri tollkvótar fyrir íslenzkar búvörur inn á ESB-markað, einkum lambakjöt og skyr, ekki hugsaðir fyrst og fremst fyrir Bretland. Lambakjöt er selt t.d. til Spánar, Þýzkalands, Hollands, Ítalíu, Danmerkur og Svíþjóðar. Mjólkursamsalan, helzti útflytjandi skyrs, hefur greint frá því að einkum hafi verið horft til uppbyggingar markaða á Norðurlöndum, en skyr nýtur vinsælda í fleiri ESB-ríkjum, t.d. á Möltu, Írlandi, Ítalíu og í Benelux-ríkjunum.

Í öðru lagi var síðastliðinn fimmtudag, sama daginn og Morgunblaðið birti grein Arnars, gert samkomulag við Bretland um að bráðabirgðafríverzlunarsamningur Íslands, Noregs og Bretlands, sem var gerður vorið 2019, muni gilda í viðskiptum ríkjanna ef ekki næst samningur til framtíðar fyrir áramót. Samningurinn kveður á um að Ísland og Bretland veiti hvort öðru gagnkvæma innflutningskvóta.

Þannig fær Ísland tollfrjálsan kvóta fyrir rúmlega þúsund tonn af búvörum inn á brezkan markað; 692 tonn af lambakjöti og 329 tonn af skyri. Á móti fær Bretland tollkvóta hér á landi fyrir 30 tonn af osti og 18 tonn af unnum kjötvörum. Þessar innflutningsheimildir eru byggðar á viðskiptum ríkjanna undanfarin ár. Ganga má út frá því að í framtíðarsamningi við Bretland verði ekki samið um síðri markaðsaðgang. Þannig halda íslenzkir framleiðendur búvara í það minnsta þeim aðgangi að brezka markaðnum sem þeir hafa haft undanfarin ár og hafa auk þess allan innflutningskvótann á ESB-markað óskertan. Markaðsaðgangur íslenzkra útflytjenda búvara batnar með öðrum orðum við útgöngu Bretlands úr ESB, en ekki öfugt.

Af hverju töpuðust tækifærin?
Talsmenn þess að segja upp samningnum snúa fleiru á haus. Sigurður Ingi rifjar réttilega upp að það voru hagsmunaaðilar í landbúnaðinum, sem sjálfir fóru fram á það í byrjun áratugarins að samningurinn yrði gerður, af því að þeir sáu mikil tækifæri í að auka útflutning á ESB-markaðinn. Nú eiga forsendur hins vegar að vera brostnar af því að mjólkur- og kjötafurðastöðvar „hafa einhverra hluta vegna ekki nýtt tækifærin sem samningurinn skapaði þeim.“

Nú framleiðir íslenzkur landbúnaður að mati eigin talsmanna beztu og heilnæmustu búvörur í heimi. Þarf ekki að svara því hvers vegna ekki hafi tekizt að koma þeim á markað í nágrannalöndum okkar og hvað hafi farið úrskeiðis í áætlunum framleiðendanna áður en horfið er aftur til fortíðar í milliríkjaviðskiptum?

Heildarhagsmunirnir
Hér á landi hefur reynzt góður markaður fyrir alls konar gæðaafurðir frá ESB og neytendur njóta stóraukins úrvals af t.d. ostum og kjötvörum á hagstæðu verði. Samningurinn hefur auðveldað innflutningsfyrirtækjum að útvega bæði verzlunum og veitingahúsum ýmsar vörur sem mikil eftirspurn er eftir en einfaldlega ekki til í nægu magni frá innlendum framleiðendum, t.d. villibráð og nautakjöt í efstu gæðaflokkum. Afturhvarf til þess ástands sem ríkti fyrir gerð samningsins myndi án vafa greiða veitingahúsageiranum, sem nú berst í bökkum, þungt högg.

Arnar segir í grein sinni að það sé „ekki óeðlileg krafa að ætlast til þess að heildarhagsmunir Íslands séu í huga okkar fólks við gerð alþjóðlegra samninga.“ Það er rétt. Tollasamningur Íslands og ESB felur í sér „mjög jákvæð áhrif fyrir neytendur og mikil sóknarfæri til aukins útflutnings,“ eins og Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, orðaði það þegar hann var nýbúinn að gera samninginn árið 2015. Ættum við að segja upp samningi sem hefur eflt almannahag af því að landbúnaðurinn hefur misst af tækifærunum sem í honum felast?

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning