Eru stjórnvöld í liði með þjóðinni eða sérhagsmunum?

02.01.2020

Grein Magnúsar Óla Ólafssonar, forstjóra Innness og formanns FA, í áramótablaði Viðskiptablaðsins 2019-2020. 

Magnús Óli Ólafsson formaður FA.

Matur er mannsins megin segir einhvers staðar. Hvað er nær okkur en maturinn? Þegar við tölum um að útrýma fátækt ætti að vera grunnviðmið að eiga til hnífs og skeiðar, að geta nærst á góðum og hollum mat. Til þess að svo megi vera verður verslunin að tryggja sem fjölbreyttast úrval svo neytendur geti valið þann kost sem þeim hentar bæði í verðlagi og gæðum.

Við sem stundum verslun eigum að gera þá kröfu til sjálfra okkar að neytendur geti gengið að sömu gæðum og verði og gerist best í nágrannalöndum. Stjórnvöld þurfa að búa atvinnulífinu umgjörð til að sá árangur náist. Er regluverkið hér á landi eins og best verður á kosið eða er það svo íþyngjandi fyrir atvinnulífið að þessi háleitu markmið séu draumar einir?

Við búum við aðstæður sem eru ekki eins hagkvæmar og verslun í nágrannalöndunum býr við. Við erum með gjaldmiðil sem stöðugt er á flökti, en verslunin í nágrannalöndunum kaupir og selur vörur í sömu mynt með enga gengisáhættu. Fjármagnskostnaður hér er mun hærri en á öðrum mörkuðum í kringum okkur. Loks eru háir tollar á búvörum sem gera að verkum að neytendur þurfa að greiða margfalt hærra verð fyrir þessar vörur ásamt því að drjúgur hluti af sköttum okkur fer í beina styrki til landbúnaðarins. Ríkin í kringum okkur eru flest farin að beina stuðningi við landbúnaðinn í beingreiðslur sem eru ekki markaðstruflandi, auk þess að leggja á talsvert lægri tolla.

Hlúum að landbúnaði
Ef stjórnvöld í samstarfi við landbúnaðinn færu í vegferð neytendum til hagsbóta þá á innlendur landbúnaður framtíðarvon. Ef hins vegar á að búa svo um hnútana að gera þessa atvinnugrein að vernduðum vinnustað þá á hann enga framtíð. Neytendur finna sér leið framhjá dýrum mat. Nú stækkar markhópurinn vegan eða grænmetisætur hratt hjá ungu fólki. Það dugar ekki að segja því að við eigum bestu kjöt- eða mjólkurvörur í heimi, það fer sínar eigin leiðir.

Stjórnvöld hafa margsinnis brotið á neytendum og verið dæmd til að endurgreiða háar fjárhæðir, þeim er svo umhugað að gæta sérhagsmuna lítils hóps að þjóðin er sett út í kuldann.

Alltof oft biðla innlendir framleiðendur til stjórnvalda um að hið opinbera komi að málum í formi niðurgreiðslu eða setja þurfi ofurtolla til að búa til álagningarauka fyrir þá. Bændur hafa haft á orði að búvörusamningar séu þeirra kjarasamningar. Það er áhugavert að bændur skuli vera farnir að líta á sig sem ríkisstarfsmenn frekar en sjálfstæða atvinnurekendur. Að ein starfsstétt biðli til hins opinbera að setja álögur á keppinauta sína, eins og gert hefur verið við gerð búvörusamninga, sýnir á hvaða villigötum matvælaframleiðsla er á hér á landi.

Staðsetning okkar ástkæra lands á hnattkringlunni gerir það að verkum að Ísland mun aldrei keppa við það verð og framleiðslumagn sem gerist best í nágrannalöndunum. Oft er talað um að við eigum bestu matvæli í heimi. Staðreyndirnar sýna að í sumum tilvikum eiga þær fullyrðingar við rök að styðjast en því miður er hér á landi eins og erlendis víða pottur brotinn. Stundum er eins og við viljum ekki kannast við eða heyra þegar innkallanir eru á kjúklingi vegna salmónellu, brúneggjamál eða slæm meðferð dýra koma upp. Stjórnvöld þurfa að tryggja að bæði innflutt og innlend framleiðsla uppfylli hæstu gæðakröfur. Það er ekki nóg að síendurtaka að Ísland sé best í heimi ef svo er ekki. Og í framhaldinu má spyrja: Ef við erum með bestu matvöru í heimi, hvað er þá að óttast að fá innflutta vöru til landsins? Munu neytendur ekki velja gæðin?

Það er kominn tími að huga að þeim sem búa í þessu landi. Stjórnvöld þurfa að standa með sínu fólki og eiga samtal við atvinnulífið á breiðum grundvelli um það hvernig við getum sem best tryggt heilbrigðan og öruggan mat á góðum kjörum. Ein leiðin til þess er einföld og skilvirk skattheimta. Nú á enn og aftur að grípa til sykurskatts sem töfralausn lýðheilsu landsmanna til heilla. Það á hins vegar ekki að leggja hann á mjólkurvörur, þó svo að margar hverjar innihaldi sykur virðist hann ekki lengur óhollur þegar hann er blandaður við innlendar búvörur. Það eru ekki mikil rök með slíkum málflutningi. Á móti á að lækka verð á grænmeti og ávöxtum með því að fella virðisaukaskattinn af slíkum vörum. Auðvitað er gott mál að lækka verð á matvörum, en að búa til þriðja vsk-stigið auk þess að taka aftur upp aukaskattlagningu á sumum vörum, gengur þvert gegn allri skynsemi og ráðleggingum sérfræðinga um að hafa skattlagningu sem einfaldasta til að hindra undanskot frá skatti.

Sú var tíðin, þegar söluskattur var á öllu nema matvörum en veitingastaðir greiddu söluskatt, að matvörukaupmenn sem seldu heit svið í hádeginu áttu að innheimta söluskatt af þeirri vöru. Þau svið, sem seldust ekki og voru orðin köld og pökkuð inn og sett fram í kæli, þá féll söluskatturinn af sviðunum. Er reynslan af slíkum æfingum í skattlagningu ekki nógu vond til að stjórnvöld hafi lært að forðast þær?

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning