FA eggjar nýja stjórn til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum

20.12.2016

IMG_0244Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur stefnt íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólinn vegna banns við innflutningi á fersku kjöti og eggjum, svo og vörum úr ógerilsneyddri mjólk, sem stofnunin telur brjóta gegn EES-samningnum. „Innflutningstakmarkanirnar á Íslandi leiða af sér ónauðsynlegar og ástæðulausar viðskiptahindranir,“ segir í fréttatilkynningu ESA.

„Þetta snýr að aðgengi að innri markaðnum og grunnreglum um gagnkvæmni í viðskiptum. Sennilega þætti ýmsum súrt í broti ef önnur EES-ríki beittu viðlíka viðskiptahindrunum gagnvart innflutningi íslenskrar matvöru sem sætir heilbrigðiseftirliti á Íslandi,“ segir Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður hjá ESA í tilkynningunni.

Þar kemur fram að aðalmarkmið reglna um flutning matvöru á EES-svæðinu sé að stuðla að og bæta heilbrigðiseftirlit í upprunalandi vöru til að tryggja öryggi manna og dýra en samtímis er eftirlit á viðtökustað minnkað til að auka skilvirkni og auðvelda viðskipti. Þetta gildir því einnig um íslenskar útflutningsvörur sem fluttar eru til EES-ríkja. Þær undigangast eftirlit á Íslandi áður en þær eru fluttar út.

Vísun máls til EFTA-dómstólsins er lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA á hendur EFTA-ríki, að því er segir í tilkynningu ESA. Áður hafa íslensk stjórnvöld verið upplýst um afstöðu stofnunarinnar og veittur kostur á að koma röksemdum sínum á framfæri sem og að ljúka málinu með því að innleiða viðeigandi löggjöf innan gildandi tímamarka.

Ný stjórn uppfylli skuldbindingar Íslands
„Það er með ólíkindum að íslenska ríkið streitist enn á móti í þessum tveimur málum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „EFTA-dómstóllinn hefur þegar úrskurðað innflutningsbannið á fersku kjöti andstætt EES-samningnum í ráðgefandi áliti sínu vegna máls Ferskra kjötvara gegn íslenska ríkinu. Héraðsdómur á Íslandi hefur komist að sömu niðurstöðu. Það þarf enginn að velkjast í vafa um hvernig þetta mál fer fyrir EFTA-dómstólnum. Við verðum að treysta því að ný ríkisstjórn hætti þessum skollaleik og uppfylli skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.“

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning