Grein birt í Morgunblaðinu 25. október 2014
Eftir Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda
Morgunblaðið greindi frá því á forsíðu miðvikudaginn 22. október að stjórnkerfið hefði ekki undan við innleiðingu tilskipana Evrópusambandsins, sem Íslandi ber að innleiða samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Blaðið sagði frá því að opinberir starfsmenn kvörtuðu undan því að hafa hvorki fé né mannafla til að fylgjast með EES-reglum. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kvörtuðu menn undan álagi, sem hefði aukizt með fækkun starfsfólks.
Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir Jóni Gíslasyni, forstjóra Matvælastofnunar, að æskilegt væri að stofnunin gæti sent fulltrúa sína til Brussel vegna EES-tilskipana í vinnslu. „Okkar starfsfólk sækir ekki fundi í Brussel þegar reglurnar eru á vinnslustigi. Það væri mjög æskilegt að geta komið að málum … við höfum ekki tök á því. Það er til lítið af fjármunum,“ segir Jón.
Ólafur Friðriksson skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu tók í sama streng. Ólafur sagði í blaðinu að á hans skrifstofu væri einn starfsmaður í innleiðingu EES-gerða, sem hefði ekki undan. Æskilegast væri að geta gert athugasemdir við EES-löggjöf á fyrri stigum, enda væri árangursríkast að reyna að koma sjónarmiðum Íslands að á undirbúningsstigi reglugerða, frekar en þegar búið væri að gefa þær út og innleiða meðal aðildarríkjanna.
Góð stefna – hvar er framkvæmdin?
Þessi staða mála í stjórnarráðinu kemur á óvart, í ljósi þess að í marz síðastliðnum kynnti ríkisstjórnin „Evrópustefnu“ sem snýst að stórum hluta um að gera átak í innleiðingu EES-gerða og hagsmunagæzlu Íslands á vettvangi EES-samstarfsins.
Eitt af fjórum meginmarkmiðum stefnunnar er að gera „átak í snemmgreiningu löggjafar á vettvangi EES með það að markmiði að greina á fyrstu stigum stór hagsmunamál sem kalla á sérstök viðbrögð.“ Lýsingar embættismannanna í frétt Morgunblaðsins benda ekki til að neitt hafi gerzt í því máli.
Hér eru miklir hagsmunir íslenzkra fyrirtækja á ferð; oft má til dæmis finna lausn á útfærslu Evrópulöggjafarinnar sem er minna íþyngjandi, ekki sízt fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, með því að bregðast við á fyrstu stigum í stað þess að Ísland þýði Evrópureglurnar hráar þegar önnur ríki hafa haft veg og vanda af undirbúningi þeirra og samþykkt. Það að stjórnvöld fylgist með þróun nýrra reglna sem snerta atvinnulífið allt frá undirbúningsstigi stuðlar líka að því að hægt sé að halda fyrirtækjunum upplýstum um hvaða áhrif breytingar á reglunum hafi á starfsumhverfi þeirra, en upp á það vantar verulega í dag.
Dómsmálum fjölgar enn
Ísland stendur sig verst allra EES-ríkja; nær ekki að innleiða rúmlega 3% reglnanna á réttum tíma og er fyrir vikið iðulega dregið fyrir EFTA-dómstólinn að óþörfu. Starfsfólk stjórnsýslunnar er bundið í þessum flórmokstri, í stað þess að beita sér fyrir íslenzkum hagsmunum á upphafsstigum löggjafarferlisins. Samkvæmt Evrópustefnunni frá í marz á að koma innleiðingarhallanum undir 1% eigi síðar en á fyrri hluta næsta árs. Fátt bendir til að það markmið náist.
Annað markmið ríkisstjórnarinnar er að á sama tíma „verði ekkert dómsmál fyrir EFTA-dómstólnum vegna skorts á innleiðingu EES-gerða.“ Það sem af er október hefur Eftirlitsstofnun EFTA vísað tveimur slíkum málum til dómstólsins. Þá er ótalið brot Íslands á reglum EES um frjálsan innflutning á fersku kjöti, sem landbúnaðarráðherra hefur lýst yfir að hann hyggist útkljá fyrir EFTA-dómstólnum.
Engir samráðshópar
Í Evrópustefnunni var ennfremur boðað að settur yrði á fót samráðshópur með fulltrúum atvinnulífsins til þess að greina tækifæri innan Evrópu með hliðsjón af núgildandi viðskiptasamningum. Þá yrði komið á fót samstarfshópi um EES-mál milli stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði með áherzlu á hagsmunagreiningu EES-reglna. Þessir starfshópar stjórnvalda og atvinnulífsins hafa enn ekki verið skipaðir, hálfu ári síðar.
Eins og stendur í Evrópustefnunni er eitt af meginmarkmiðum EES-samningsins einsleitni löggjafar á svæðinu; að einstaklingar og fyrirtæki njóti ávallt samsvarandi réttinda í öllum aðildarríkjunum. Þetta er eitt af hinum stóru hagsmunamálum íslenzkra fyrirtækja og réttilega segir í Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar: „Hér er um ítrustu hagsmuni að ræða.“
Í því ljósi hlýtur að vekja furðu forsvarsmanna fyrirtækja, sem eiga mikið undir greiðum milliríkjaviðskiptum og aðgangi að Evrópumarkaðnum, að Evrópustefnu stjórnvalda skuli ekki hafa verið fylgt fastar eftir. Sleifarlag í þessum efnum torveldar á endanum viðskipti, dregur úr vöruframboði og hækkar verð til neytenda. Því til viðbótar dregur það úr trúverðugleika íslenzks markaðar ef svo virðist að Ísland sé ekki í stakk búið að spila eftir sömu leikreglum og önnur EES-ríki.