Eyþór: Hvað ef ríkið hefði niðurgreitt bakarísbrauð um 90%?

12.02.2021
Eyþór Eðvarðsson á streymisfundi FA

Hvað myndi gerast á bakarísmarkaðnum ef ríkið gæfi fimm bakaríum svo mikla peninga að þau gætu niðurgreitt vörur sínar um 90% heilt sumar? Þessari spurningu velti Eyþór Eðvarðsson, ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun, upp á opnum streymisfundi FA um samkeppnismál.

Í erindi sínu gagnrýndi Eyþór ríkisrekna og ríkisstyrkta háskóla harðlega fyrir að seilast æ lengra inn á samkeppnismarkað. Endurmenntunarstofnanir háskóla sem njóta ríkulegra ríkisframlaga eru í beinni samkeppni við einkarekin fyrirtæki á fræðslumarkaði.

„Steininn tók úr síðastliðið sumar, þegar ríkið ákvað, af góðu tilefni, að setja 500 milljónir í að niðurgreiða námskeið í háskólum. Þið getið bara rétt ímyndað ykkur hvað gerðist á fræðslumarkaðnum, sem var þegar næstum botnfrosinn og þurfti að hafa ansi hressilega fyrir því að ná upp einhverri veltu og ná inn fyrir launum og slíku. Allt í einu er bara dælt inn 500 milljónum,“ sagði Eyþór. „Námskeið voru þarna seld á 10% af því verði sem þau seljast venjulega á. Ég veit ekki hvort menn geta ímyndað sér ef þetta væru bakarí, og ríkið myndi gefa einu bakaríi eða fimm af öllum bakaríum landsins svo háa upphæð að þau gætu selt brauð, vínarbrauð, snúða og kleinur á 10% af verðinu allt sumarið – hvað myndi gerast á þeim markaði? Það er gott að velta því aðeins fyrir sér. “

Fyrirkomulag eins og á ferðagjöfinni hefði verið sanngjarnara
Eyþór sagði að miklu eðlilegri og sanngjarnari leið til að styrkja fólk í atvinnuleit til sumarnáms, eins og var tilgangurinn með ríkisstyrknum, hefði verið að nota svipað fyrirkomulag og á ferðagjöf stjórnvalda; að leyfa viðskiptavinunum að velja hvar þeir notuðu styrkinn frá ríkinu.

Félag atvinnurekenda, fyrir hönd einkarekinna fræðslufyrirtækja í félaginu, kvartaði til Samkeppniseftirlitsins undan niðurgreiðslu á samkeppnisrekstri háskólanna síðastliðið sumar. Kvörtun var einnig send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Þá hefur félagið átt í samskiptum við menntamálaráðuneytið um hvernig megi rétta samkeppnisstöðuna á fræðslumarkaðnum.

Þarf að meta samkeppnisleg áhrif stuðningsaðgerða
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, vék að sumarnáminu í erindi sínu á fundinum. Hann sagði að mikilvægt að stjórnvöld mætu samkeppnisleg áhrif aðgerða, sem gripið væri til vegna kórónuveirufaraldursins, og útfærðu stuðninginn þannig  að samkeppnislegur skaði væri lágmarkaður. „Sama aðferðafræði á að vera leiðarljós stjórnvalda þegar þau útfæra til dæmis fjárveitingar til námskeiðahalds ríkisrekinna skóla eins og Eyþór vék að hérna áðan,“ sagði Páll Gunnar.

Upptaka af fundinum á Facebook-síðu FA

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning